Hægt er að fylgjast með ferðalaginu og beinni útsendingu úr flugstjórnarklefanum.
Sólarorkuknúnu flugvélinni Solar Impulse 2 var flogið af stað frá japönsku borginni Nagoya í gærkvöldi í annarri tilraun til að fljúga vélinni í einum legg yfir Kyrrahafið. Er það stærsti leggurinn í för vélarinnar í kringum jörðina.
Áætlað er að vélinni verði lent í Havaí eftir fimm sólarhringa, en flugstjórinn Andre Borschberg sem flýgur vélinni yfir Kyrrahafið er einn um borð og flýgur vélinni allan tímann. Á twittersíðu Borschberg kemur fram að vélinni verði ekki snúið við úr þessu.
Now fully into the flight to Hawaii. Very strong emotions as I passed the point of no return: exploration starts here pic.twitter.com/l9LT20jztE
— André Borschberg (@andreborschberg) June 29, 2015
Slæmt veður hefur tafið flug vélarinnar í tæpa tvo mánuði. Lagt var af stað frá Abu Dhabi hinn 9. mars sl. og áætlað er að hnattflugi vélarinnar ljúki í lok júlí eða byrjun ágúst á sama stað.
Flugleiðin er eftirfarandi: Abu Dhabi - Múskat í Óman - Ahmedabad í Indlandi - Mandalay í Myanmar - Chongqing í Kína - Nanjing í Kína - Honolulu á Havaí - Phoenix í Bandaríkjunum - óákveðinn áfangastaður í miðríkjum Bandaríkjanna (fer eftir veðri) - New York í Bandaríkjunum - óákveðinn áfangastaður í Suður-Evrópu eða Norður-Afríku - Abu Dhabi.
Feðgarnir Jón Björgvinsson, fréttaritari og ljósmyndari, og sonur hans, Daníel Jónsson rafmagnsverkfræðingur, taka þátt í ævintýrinu en ef það tekst verður flugvélin sú fyrsta sem flýgur í kringum hnöttinn einungis knúin af sólarorku.
Hægt er að fylgjast með ferðalaginu og beinni útsendingu úr flugstjórnarklefanum.