Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefur rift samningi sínum við Donald Trump þess efnis að sýna frá fegurðarsamkeppnum á hans vegum eftir að hann lét niðrandi ummæli falla um fólk frá Mexíkó. Trump á hlut í fyrirtækjunum sem halda keppnirnar.
Donald Trump sagðist aftur á móti mundu íhuga málsókn á hendur NBC. Fyrr í mánuðnum sakaði hann fólk frá Mexíkó um að auka flæði fíkniefna til Bandaríkjanna og standa að glæpum. Ummælin lét hann falla þegar hann tilkynnti framboð í forvali Repúblikana um forsetaframbjóðanda flokksins.
„Þeir koma með fíkniefni, þeir koma með glæpi, þetta eru nauðgarar og ég býst við að sumir þeirra séu ágætir, en ég tala við landamæraverði og þeir segja mér hvað við fáum,“ sagði hann í ræðu sinni þann 16. júní.
Hann lofaði einnig að byggja „mikinn vegg“ á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og að Mexíkó borgaði fyrir gerð veggjarins.
Seinna sagðist hann hafa átt við bandaríska löggjafa, ekki íbúa Mexíkó.