Sjónir beinast að Ítalíu og Spáni

AFP

Forystumenn innan Evrópusambandsins hafa í morgun lagt áherslu á að ekki sé hætta á að yfirvofandi greiðsluþrot Grikklands hafi keðjuverkandi áhrif innan evrusvæðisins. Einkum ráðamenn í evruríkjum sem staðið hafa höllum fæti eins og á Spáni og Ítalíu. Þá hafa þeir lagt áherslu á að enn væri ekki útilokað að samkomulag næðist um skuldavanda Grikkja og áframhaldandi lánveitingar alþjóðlegra lánadrottna landsins. 

Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði þannig í morgun samkvæmt frétt AFP að frönsku efnahagslífi stafaði engin hætta af efnahagserfiðleikum Grikkja. Hann sagði ennfremur að boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla í Grikklandi næsta sunnudag, um kröfur lánadrottna landsins um aðhaldsaðgerðir í skiptum fyrir frekari lánveitingar, snerist um það hvort Grikkir ætluðu að vera áfram hluti af evrusvæðinu eða ekki. „Þetta er lýðræði, það er réttur grísku þjóðarinnar að ákveða hvernig framtíð hún vill. Málið snýst um það hvort Grikkir vilja vera áfram á evrusvæðinu eða taka þá áhættu að segja skilið við það.“

Reiðubúnir til frekari viðræðna

Hollande sagði Frakka áfram reiðubúna til þess að ræða við gríska ráðamenn um mögulegt samkomulag. Luis de Guindos, efnahagsmálaráðherra Spánar, sagði að sama skapi í morgun í samtali við spænska ríkisútvarpið RNE að hann reiknaði með því að samkomulag næðist tímanlega áður en núverandi lánafyrirgreiðslur rynnu út annað kvöld. „Það er enn tími til stefnu. [...] Ég útiloka ekki að enn sé hægt að ná samkomulagi innan þessara tímamarka.“

Fjármálaráðherra Ítalíu, Pier Carlo Padoan, gerði að sama skapi lítið úr mögulegum neikvæðum áhrifum frá efnahagsvanda Grikkja á ítalskt efnahagslíf. Lagði hann áherslu á að Evrópski seðlabankinn hefði öll nauðsynleg tæki til þess að bergðast við ef á þyrfti að halda í samtali við spænska dagblaðið Corriere della Sera. Haft er eftir Pierre Moscovici, efnahagsmálastjóra Evrópusambandsins, í frétt AFP að litlu hafi munað að samkomulag næðist um helgina þegar upp úr slitnaði.

„Við verðum að halda áfram viðræðunum. Dyrnar eru alltaf opnar í þeim efnum,“ sagði Moscovici í samtali við franska ríkisútvarpið. Sagði hann að áframhaldandi viðræður gætu fyrirvaralaust hafist á ný. Lánakjör bæði Spánar og Ítalíu á alþjóðlegum mörkuðum hafa versnað í kjölfar frétta af yfirvofandi greiðsluþroti Grikklands. Sömuleiðis hefur gengi evrunnar lækkað umtalsvert gagnvart öðrum helstu gjaldmiðlum heimsins.

Francois Hollande, forseti Frakklands.
Francois Hollande, forseti Frakklands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert