Í gær var ár síðan að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir stofnun kalífadæmis á þeim landsvæðum sem samtökin réðu þá yfir í Írak og Sýrlandi. Jafnframt var því lýst yfir við sama tilefni að leiðtogi samtakanna Abu Bakr al-Baghdadi væri nú kalífi múslima alls staðar í heiminum. „Höfuðborg“ kalífadæmisins er Raqqa í Sýrlandi.
29. júní 2014 náði yfirráðasvæði samtakanna frá frá borginni Aleppo í norðurhluta Sýrlands til Diyala-héraðs í norðurhluta Íraks.
Á aðeins nokkrum árum hafa samtökin þróast úr litlum uppreisnarhóp í ein hættulegustu hryðjuverkasamtök sögunnar.
Í dag stjórna samtökin enn stórum landsvæðum í Írak og Sýrlandi og hafa laðað til sín mörg þúsund vestræna stuðningsmenn á liðnu ári. Jafnframt eru samtökin farin að fremja hryðjuverk í öðrum löndum eins og sást í hryðjuverkaárásinni á baðströnd í Túnis á föstudaginn og í mosku í Kúveit.
Í augum marga birtist Ríki íslams eins og skrattinn úr sauðaleggnum síðasta vor. Liðsmenn samtakanna, berandi svarta fána, náðu yfirráðum í borginni Mosul í Írak snemma í júní á síðasta ári. Samtökin höfðu fyrir það aðeins verið í bardögum í Sýrlandi en þegar að þau náðu yfirráðum í næststærstu borg Íraks varð ljós að samtökin höfðu stórar áætlanir.
Aðeins nokkrum dögum síðar náðu liðsmenn samtakanna yfirráðum í borginni Tikrit, sem er líklega þekktust fyrir að vera fæðingastaður Saddam Hussein, fyrrum forseta landsins. Þá var ljóst að samtökunum var fúlasta alvara með að ná yfirráðum í norður Írak.
Fljótt kom í ljós að hersveitir Íraka réðu ekki við kraftinn sem fylgdi Ríki íslams. Margir hermenn einfaldlega köstuðu frá sér vopnum sínum og hlupu í burtu sáu þeir til meðlima samtakanna. Það var ekki fyrr en í ágúst, þegar að Bandaríkin ákváðu að hefja loftárásir á bækistöðvar samtakanna, þar sem að einhver árangur náðist í því að stöðva uppgang Ríkis íslams. Loftárásirnar voru fyrst gerðar vegna ótta um að Ríki íslams myndi ná að þurrka út minnihlutahóp jasída með fjöldamorðum og mynduðu Bandaríkin bandalag með öðrum vestrænum þjóðum um að berjast gegn samtökunum úr lofti. Var því heitið að enginn landhernaður færi fram.
Hernaður Bandaríkjanna gegn Ríki íslams hefur kostað ríkissjóð um þrjá milljarða bandaríkjadali eða um 9,1 milljón dollara á dag.
En þrátt fyrir þessar tilraunir vesturveldanna sýna gögn að samtökin eru að mestu leyti ósigruð. Það sést kannski helst á þeirri staðreynd að aldrei hafa fleiri tekið þátt í ofbeldisverkum í nafni samtakanna og um allan heim.
Að mati Matthew Henman, sem sérhæfir sig í því að rannsaka hryðjuverk hafa samtökin náð gífurlegum árangri og eru „vissulega sterkari nú en fyrir ári síðan.“
„Þegar að Mosul féll á síðasta ári var fólk hissa, en ég held að fólk hafi orðið meira hissa ef því hefði verið sagt að ári seinna væru samtökin enn með Mosul en einnig Ramadi og að yfirráðasvæði þeirra væri að stækka. Meðlimir Ríkis íslams eru rosalega samstilltir,“ sagði Henman í viðtali við NBC.
Samtökin IHS Jane'ss sem skoðar hryðjuverk um allan heim, hafa tekið saman 3.095 árásir í nafni samtakanna og að 6.546 óbreyttir borgarar hafi látið lífið vegna þeirra síðan að kalífadæmið var stofnað.
Fjöldi árása samtakanna er nokkuð svipaður mánuð frá mánuði. Þær voru 210 talsins í júlí 2014 og 300 í ágúst. Þá mánuði féllu jafnframt rúmlega 500 almennir borgarar fyrir hendi samtakanna. Alla mánuði síðan þá hafa að minnsta kosti 220 árásir verið framdar, oft miklu fleiri. Í apríl og maí á þessu ári voru framdar 285 og 290 árásir í nafni samtakanna.
Í ágúst 2014 var herferð samtakanna búin að taka mörg hundruð ef ekki þúsund líf og fara eins og stormsveipur um stór landsvæði.
En þann 19. ágúst 2014 birtu samtökin myndband sem sýndi aftöku bandarískra blaðamannsins James Foley. Í myndbandinu kom m.a. fram að aftakan væri gerð þess að hefna fyrir loftárásir Bandaríkjamanna gegn samtökunum í Írak.
Foley hafði verið fangaður í norður Sýrlandi árið 2012. Fleiri myndbönd sem sýndu aftökur vestrænna fanga fylgdu í kjölfarið og var þá eins og fleiri Vesturlandabúar hafi áttað sig á ógninni sem samtökin eru.
Voðaverk samtakanna hafa vakið óhug um allan heim en mörgum að óvörum, einnig aðdáun. Mörg þúsund manns hafa ferðast til Sýrlands og Íraks til þess eins að ganga til liðs við Ríki íslams og berjast í nafni samtakanna. Athygli hefur vakið hversu margar ungar konur, frá löndum eins og Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi hafa haldið til Miðausturlanda, heillaðar af boðskap Ríki íslams sem boðaður er að stórum hluta á samfélagsmiðlum og er það eitt sem aðskilur samtökin frá öðrum hryðjuverkasamtökum.
Mikilvægur sigur náðist í baráttunni við Ríki íslams í lok janúarmánaðar þegar að þau voru rekin úr borginni Kobane sem er þriðji stærsti bær Kúrda í Sýrlandi. Kobane stendur við landamæri Sýrlands og Tyrklands en Kúrdar náðu yfirráðum í bænum eftir átök sem stóðu yfir í fjóra mánuði. Her sameinaðra ríkja gegn Ríki íslams tók þátt í bardaganum með loftárásum. Það er ljóst að loftárásirnar hafa haft jákvæð áhrif á baráttuna en fyrr í þessum mánuði greindu bandarísk yfirvöld frá því að yfir 10.000 liðsmenn Ríkis íslams hafi fallið í 4.000 loftárásum síðan í ágúst á síðasta ári.
En baráttan er langt frá því að vera búin þar sem Ríki íslams bætir við sig liðsmönnum á degi hverjum. Í mars misstu samtökin yfirráð yfir Tikrit í hendur íraska hersins. Það lítur ekki út fyrir að sá ósigur hafi haft mikil áhrif á samtökin en tæpum tveimur mánuðum seinna náðu þau yfirráðum í írösku borginni Ramadi og nokkrum dögum seinna í sýrlensku borginni Palmyra. Þar að auki réðust vígamenn samtakanna óvænt á Kobane í síðustu viku eftir að hún hafði verið laus við samtökin í fimm mánuði. Að minnsta kosti 200 óbreyttir borgarar láta lífið í innrásinni.
En Ríki íslams er svo sannarlega ekki aðeins vandamál Íraks og Sýrlands og sannaðist það á föstudaginn þegar að 38 ferðamenn létu lífið í árás á baðströnd í Túnis. Samtökin lýstu yfir ábyrgð á árásinni, en vopnaður maður frá Túnis, gekk um ströndina og skaut fólk. Flestir sem létust voru breskir ferðamenn, eða þrjátíu talsins.
Sama dag var framin sjálfsmorðsárás á mosku í Kúveit þar sem 26 létu lífið. Ríki íslams hefur einnig lýst yfir ábyrgð á þeirri árás.
Henman á erfitt með að segja hver staða Ríkis íslams verði eftir ár. Hann bendir þó á að þrátt fyrir að samtökin séu sterk ríkir visst óvissuástand um framtíð þeirra.
„Hlutirnir gætu enn fallið saman,“ sagði hann og bætir við að það sé ekki raunhæft að samtökin myndu einfaldlega hverfa í náinni framtíð. „Hópurinn getur misst yfirráðasvæði, það er hægt að ýta þeim aftar, það er hægt að klippa af þeim vængina að vissu marki. En hugmyndafræðin sem þeir hafa skapað, hún fer ekki neitt."