Hollenskir saksóknarar telja sig hafa fundið nokkra sem talið er að hafi hugsanlega átt þátt í því að farþegavélin MH17 var skotin niður yfir Úkraínu síðasta sumar. Enginn er þó grunaður í málinu sem stendur.
298 manns voru um borð í vélinni sem var í eigu Malaysia Airlines og létu allir lífið. Meirihluti farþega vélarinnar var frá Hollandi. Rannsókn á málinu stendur enn yfir. Vélin, sem var af gerðinni Boeing 777, var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur. Von er á skýrslu um málið í lok þessa árs.
Þrjár vélar á vegum Lufthansa flugu yfir svæðið sama dag og vél Malaysia Airlines var grandað, ein aðeins tuttugu mínútum áður. Svo virðist sem tilviljun hafi ráðið því að engin þeirra varð fyrir árás.