Ríkissaksóknari Rússlands hefur nú til rannsóknar hvort löglega hafi verið staðið að málum þegar Sovétríkin viðurkenndu sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna árið 1991. Utanríkisráðherra Litháens, Linas Linkevicius, segir rannsóknina „fáránlega ögrun“.
Eistland, Lettland og Litháen voru hernumin af hersveitum Sovétríkjanna árið 1940, en Sovétríkin liðu undir lok 1991.
Í síðustu viku lýsti ríkissaksóknaraembætti Rússlands því yfir að framsal yfirráða yfir Krímskaga frá Rússlandi til Úkraínu árið 1954 hefði verið ólögmætt, en á þeim tíma voru bæði ríki hluti af Sovétríkjunum sem þá lutu forystu Nikita Khrushchev.
Rússar innlimuðu Krím í mars á síðasta ári en gjörningurinn var fordæmdur á heimsvísu. Rússneskir íbúar Krímskaga völdu að ganga aftur inn í Rússland í afar umdeildum kosningum en stóra minnihlutahópa Rússa er einnig að finna í Eistlandi og Lettlandi, og smærri í Litháen.
Heimildarmaður innan embættis ríkissaksóknara sagði í samtali við Interfax að rannsóknin hefði verið hafin í kjölfar beiðna frá þingmönnum. Heimildarmaðurinn ítrekaði að það myndi ekki hafa lagalegar afleiðingar þótt niðurstaða rannsóknarinnar yrði sú að ranglega hefði verið staðið að viðurkenningu sjálfstæðis ríkjanna, sem öll gengu í Evrópusambandið og Nato árið 2004.