Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir að herflutningavél hrapaði stuttu eftir flugtak og lenti á íbúðarhverfi í borginni Medan í Indónesíu. Vélin lenti á tveimur húsum og bíl áður en kviknaði í henni.
Stór hópur björgunarmanna, lögreglumanna og slökkviliðs var mættur á svæðið stuttu eftir að vélin hrapaði. Þykkan svartan reyk leggur frá svæðinu og mörg hús í kring eru skemmd samkvæmt AFP-fréttaveitunni.
Að sögn vitna var vélin óstöðug um leið og hún tókst á loft og fljótlega fór reyk að leggja frá henni. Vélin hafði aðeins verið á lofti í um tvær mínútur, og flogið fimm kílómetra, þegar hún hrapaði.
Samkvæmt upplýsingum frá hernum voru tólf um borð í vélinni þegar hún hrapaði. Að sögn lögreglu hafa fimm lík fundist, en björgunarsveitir leita nú fleiri líka. Samkvæmt fjölmiðlum í Indónesíu samanstóð áhöfnin af þremur flugmönnum, einum siglingafræðingi og átta tæknimönnum.
Hverfið sem vélin lenti á er nýlega byggt og ekki er vitað hvort íbúar hafi verið í húsunum.
Uppfært 8:00:
Tala látinna fer hækkandi, en að minnsta kosti tuttugu lík hafa nú fundist á svæðinu. Björgunarmenn eru við störf á staðnum og óttast er að enn fleiri lík finnist.
Uppfært 9:00:
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum er tala látinna nú 38. Þar af er eitt barn.