Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur hvatt kjósendur í landinu til að hafna kröfum kröfuhafa í þjóðaratkvæðagreiðslu um skuldakreppu Grikkja á sunnudaginn næstkomandi.
Tsipras segir það ljóst að atkvæðagreiðsla um aðhaldskröfur alþjóðlegra lánardrottna landsins í skiptum fyrir frekari lánafyrirgreiðslur muni hjálpa Grikkjum að fá betri niðurstöðu í kreppunni. Ef þjóðin hafni ekki kröfunum segist hann þó ekki vilja vera áfram í embætti til að hafa umsjón með frekari niðurskurði.
Núverandi björgunaráætlun Grikkja rennur út á þriðjudaginn, en þá þurfa þeir að standa skil á 1,5 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Ráðamenn í Evrópu virðast á einu máli um að yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðsla í Grikklandi snúist um aðild ríkisins að evrusamstarfinu, þ.e. val á milli evru eða drökmu. Tsipras segist hins vegar ekki vilja að landið yfirgefi evrusvæðið.
Í síðustu viku slitnaði upp úr samningaviðræðum grískra stjórnvalda við lánardrottnana eftir útspil Tsipras, sem ákvað að boða til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Í kjölfarið fóru að myndast biðraðir við gríska hraðbanka og hafa margir milljarðar evra hafa verið teknir út úr hraðbönkum og bönkum í landinu á undanförnum vikum.
Þá ákvað ríkisstjórn Grikklands að bankar þar í landi yrðu lokaðir alla vikuna, sem liður í aðgerðum til þess að koma í veg fyrir endanlegt hrun í gríska efnahagskerfinu. Ákvörðunin kom í kjölfar þess að bankaráð Evrópska seðlabankans tilkynnti um helgina að neyðarlausafjáraðstoð, sem grísku bankarnir hafa reitt sig á til að halda sér á floti, yrði haldið óbreyttri en ekki aukin. Óvissan olli einnig greiðslufalli í gær.
Tugir þúsunda manna söfnuðust utan við gríska þingið í Aþenu á í gærkvöldi til að sýna tillögum ríkisstjórnarinnar stuðning.