Að sögn vitna voru vopnaður lögreglumenn „lamaðir af ótta“ og leyfðu byssumanninum Seifeddine Rezgui að skjóta vestræna ferðamenn óáreittur í rúmlega hálftíma áður en þeir skutu hann til bana.
The Independent greinir frá þessu.
Þó svo að tveir lögreglumenn hafi verið kallaðir til aðeins mínútum eftir að árásin hófst, leið hálftími þangað til Rezgui var drepinn. Á þeim tíma skaut hann tugi ferðamanna og létust 38, þar af 30 Bretar.
Belgískur ferðamaður, sem var á staðnum, segir í samtali við The Independent að lögreglumenn sem komu á svæðið hefðu verið „lamaðir af ótta“ og ekki getað gert neitt. Ferðamaðurinn neitaði að koma undir nafni vegna ótta við lögreglu. „Sumir ungir menn kölluðu að lögreglunni, „Við erum ekki hræddir við að deyja, látið okkur fá byssurnar“,“ lýsti ferðamaðurinn.
Ungir menn tóku byssu og hlupu í átt að sundlaugargarðinum, skjótandi í loftið til þess að ná athygli byssumannsins. En byssan hætti að virka. Byssumaðurinn sneri sér þá við, kastaði að þeim handsprengju og hljóp á eftir þeim.
„Margir á ströndinni hvöttu ungu mennina áfram þegar þeir fóru aftur inn á hótelið. Fólk kallaði „Þetta er alvöru Túnis!“ sagði ferðmaðurinn.
Viðtöl sem tekin hafa verið við vitni á staðnum staðfesta það að ungir heimamenn hafi reynt að vernda ferðamennina fyrir Rezgui. Á myndbandsupptöku má sjá heimamenn búa til „mannlegan skjöld“ til þess að vernda ferðamennina fyrir manninum. Sumir þeirra sem lifðu árásina af hafa greint frá því að ekkert sást til lögreglu fyrr en eftir að byssumaðurinn yfirgaf hótelið.
Talsmaður innanríkisráðuneytis Túnis, Mohamed Ali Aroui, sagði um helgina að lögregla hafi komið á svæðið „innan við sjö mínútum“ eftir að árásin hófst. Kona sem faldi sig við sundlaug hótelsins sagðist hafa séð svarklæddan mann í felum í stiga á meðan árásinni stóð. Hann var annað hvort að leita byssumannsins eða öryggisvörður.
Uppi hafa verið sögusagnir þess efnis að annar maður hafi tekið þátt í árásinni ásamt Rezgui. Þær hafa þó ekki verið staðfestar af yfirvöldum. Einn þeirra sem lifði af árásina sagði í samtali við lögreglu að hann hafi séð mann klæddan rauðum stuttbuxum haldandi á byssu við sundlaugina. Sagt hefur verið frá því að Rezgui klæddist dökkum stuttbuxum.
Fyrri fréttir mbl.is: