Fjármálaráðherrar evruríkjanna höfnuðu því í kvöld að framlengja björgunaraðgerðir til handa Grikkjum sem renna út á miðnætti. Stjórnvöld í Aþenu höfðu bæði farið fram á nýjan björgunarpakka til tveggja ára og stutta framlengingu á áætluninni sem rennur út í nótt, en þá fellur 1,5 milljarða evra greiðsla til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á gjalddaga.
Peter Kazimir, fjármálaráðherra Slóvakíu, sagði að frestur Grikkja til að sækja um framlengingu hefði runnið út um helgina; formsins vegna væri ekki hægt að framlengja áætlunina úr þessu.
Fjármálaráðherra Finnlands, Alex Stubb, tók í sama streng en sagði að beiðni grísku ríkisstjórnarinnar um nýjan björgunarpakka til tveggja ára myndi fara í hefðbundin farveg.
Leiðtogi evruhópsins, Jeroen Dijsselbloem, sagði í samtali við CNN að svo virtist sem pólítisk afstaða og aðstæður hefðu ekki breyst og að enn sem komið er væri beðið úrslita þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur boðað á sunnudag.
Eurogroup teleconference Wednesday 11:30am, to discuss state of play #Greece
— Jeroen Dijsselbloem (@J_Dijsselbloem) June 30, 2015
Forsætisráðherra Möltu, Joseph Muscat, sagði hins vegar að Grikkir hefðu viðrað að falla frá atkvæðagreiðslunni er samningaviðræður hæfust á ný.
Yfirlýsingar ráðamanna um stöðu mála hafa ekki verið samhljóma í dag; á meðan sumir segja að ekkert hafi breyst hafa aðrir gefið vonir um að þreifingar muni skila árangri og forða grísku þjóðinni frá þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem afleiðingar beggja svara, já og nei, eru ófyrirséðar.
Greek Deputy PM Dragasakis tells ERT he advised Tsipras to accept lenders' offer & suggests referendum could be called off #Greece #euro
— Nick Malkoutzis (@NickMalkoutzis) June 30, 2015
Í Aþenu standa nú yfir mótmæli þar sem þúsundir Evrópusinna kalla eftir því að samlandar sínir kjósi já um helgina, þ.e. að gengið verði að tillögum lánadrotta landsins sem lagðar voru fram á föstudag.
Margir mótmælenda telja, líkt og ráðamenn í Evrópu hafa gefið til kynna, að atkvæðagreiðslan snúist um framtíð Grikklands í evrusamstarfinu og Evrópusambandinu.
Uppfært kl. 20.45:
Matsfyrirtækið Fitch hefur lækkað lánshæfismat Grikklands úr CCC í CC og segir nú auknar líkur á að ríkið muni ekki geta staðið í skilum á greiðslum til annarra lánadrottna en viðræður hafa staðið yfir við. Lesa má úr tilkynningu frá matsfyrirtækinu að það hafi gert ráð fyrir að samkomulag myndi nást fyrir miðnætti. Guardian sagði frá.