Vill losna við grísku stjórnina

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. AFP

Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, hvatti gríska kjósendur til þess í dag að samþykkja skilyrði alþjóðlegra lánadrottna Grikklands fyrir frekari lánveitingum í fyrirhuguðu þjóðaratkvæði á sunnudaginn. Það yrði að hans sögn til þess að ríkisstjórn landsins segði af sér sem aftur þýddi að auðveldara yrði að semja við nýja stjórn.

Fram kemur í frétt AFP að Rajoy hafi þar með orðið fyrstur forystumanna ríkja innan Evrópusambandsins til þess að kalla eftir því að gríska ríkisstjórnin undir forystu róttæka vinstriflokksins Syriza færi frá völdum. Hann bætti við að ef skilyrðunum yrði hafnað þýddi það að Grikkland hefði engan annan kost en að segja skilið við evruna.

Rifjað er upp í fréttinni að hægristjórn Rajoys standi sjálf frammi fyrir vaxandi stuðningi við róttæka vinstriflokkinn Podemos sem er bandamaður Syriza í Grikklandi. Þá er yfirvofandi greiðsluþrot Grikklands þegar farið að hafa neikvæð áhrif á spænskt efnahagslíf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert