AGS kallar eftir skuldaniðurfellingu

Grikkir búa við mikla og óþægilega óvissu um framtíðina.
Grikkir búa við mikla og óþægilega óvissu um framtíðina. AFP

Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mun Grikkland þurfa á 50 milljarða evra fjármögnun að halda næstu þrjú árin og umtalsverða skuldaniðurfellingu til að skapa „andrými“ og koma á stöðugleika í hagkerfinu.

Sjóðurinn segir skuldir Grikklands ósjálfbærar, en yfirlýsing sjóðsins gengur í berhögg við tillögur evrópskra lánadrottna gríska ríkisins, sem hafa hingað til hafnað frekari afskriftum.

Starfsmenn AGS segja að þeir séu ekki reiðubúnir til þess að leggja fram tillögu um þriðja björgunarpakkann til handa Grikkjum fyrir framkvæmdanefnd sjóðsins nema fyrir liggi skuldbinding um bæði umbætur og niðurfellingu skulda.

Það er niðurstaða sjóðsins að Grikkland ætti að fá 20 ára griðatíma þar sem það þyrfti ekki að standa skil á afborgunum og að lokagreiðsla ætti ekki að eiga sér stað fyrr en 2055. Þá segir AGS að skuldir þurfi að lækka um 30% af þjóðartekjum til að ná þeim niður í 117% af landsframleiðslu, sem eru efri mörk þess sem sjóðurinn mat sjálfbært árið 2012.

Gera má ráð fyrir að stjórnvöld í Aþenu taki skilaboðunum fagnandi, en í viðræðum við lánadrottna gríska ríkisins hefur forsætisráðherrann Alexis Tsipras ítrekað sagt að hann muni ekki ganga að sársaukafullum umbótatillögum nema samið verði um skuldaafskriftir.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert