Gætu sagt af sér ef Grikkir kjósa já

AFP

Ríkisstjórn Grikklands gæti mjög vel sagt af sér ef Grikkir samþykkja kröfur kröfu­hafa í þjóðar­at­kvæðagreiðslu um skuldakreppu Grikkja á sunnu­dag­inn næst­kom­andi. Þetta segir Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra landsins.

Aðspurður um það í útvarpsviðtali í dag hvort ríkisstjórnin segði af sér ef niðurstaða kosninganna yrði já sagði Varoufakis: „Já, við gætum mjög vel gert það. En við munum gera þetta með samvinnu að leiðarljósi með hverjum sem tekur við af okkur.“

Al­ex­is Tsipras, for­sæt­is­ráðherra Grikk­lands, hef­ur hvatt kjós­end­ur í land­inu til að hafna kröf­um kröfu­hafanna og seg­ir það ljóst að at­kvæðagreiðsla um aðhalds­kröf­ur alþjóðlegra lán­ar­drottna lands­ins í skipt­um fyr­ir frek­ari lána­fyr­ir­greiðslur muni hjálpa Grikkj­um að fá betri niður­stöðu í krepp­unni. Ef þjóðin hafni ekki kröf­un­um seg­ist hann þó ekki vilja vera áfram í embætti til að hafa um­sjón með frek­ari niður­skurði.

Grikk­land varð á þriðjudag fyrsta þróaða ríkið sem stend­ur ekki skil á skuld­bind­ing­um sín­um við Alþjóða gjald­eyr­is­sjóðinn (AGS), þegar rík­is­sjóður Grikk­lands greiddi ekki einn og hálf­an millj­arð evra, sem Grikk­land átti að greiða.

Í síðustu viku slitnaði upp úr samn­ingaviðræðum grískra stjórn­valda við lán­ar­drottn­ana eft­ir út­spil Tsipras, sem ákvað að boða til þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar. Í kjöl­farið fóru að mynd­ast biðraðir við gríska hraðbanka og hafa marg­ir millj­arðar evra hafa verið tekn­ir út úr hraðbönk­um og bönk­um í land­inu á und­an­förn­um vik­um. 

Þá ákvað rík­is­stjórn Grikk­lands að bank­ar þar í landi yrðu lokaðir alla vik­una, sem liður í aðgerðum til þess að koma í veg fyr­ir end­an­legt hrun í gríska efna­hags­kerf­inu. Ákvörðunin kom í kjöl­far þess að bankaráð Evr­ópska seðlabank­ans til­kynnti um helg­ina að neyðarlausa­fjáraðstoð, sem grísku bank­arn­ir hafa reitt sig á til að halda sér á floti, yrði haldið óbreyttri en ekki auk­in. Óviss­an olli einnig greiðslu­falli í gær.

Þá hafa fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna gefið út að frek­ari viðræður um skulda­vanda Grikk­lands muni ekki fara fram fyrr en að afstaðinni þjóðar­at­kvæðagreiðslunni.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hvetur þjóðina til að hafna kröfunum.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hvetur þjóðina til að hafna kröfunum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert