Belgískir læknar hafa komist að þeirri niðurstöðu að 24 ára gömul kona sem hefur þjáðst af þunglyndi frá barnæsku hafi rétt til að binda enda á líf sitt. Konan, nefnd Laura, sagði í samtali við dagblaðið De Morgen: „Lífið, það er ekki fyrir mig“.
„Fyrir mér er dauðinn ekki val. Ef ég ætti valkosti myndi ég velja bærilegt líf, en ég hef reynt allt án árangurs,“ sagði Laura, sem undirbýr nú útför sína og semur hinstu orðin til móður sinnar og ömmu.
Að sögn Lauru voru foreldrar hennar of ungir þegar þeir eignuðust hana og þrátt fyrir að hún hafi alist upp hjá ömmu sinni og afa sem veittu henni öryggi, frið og aga, hafi það ekki verið nóg.
„Jafnvel þótt æska mín eigi þátt að þjáningum mínum er ég sannfærð um að ég hefði haft þessa dauðaósk þótt ég hefði alist upp í friðsælli, stöðugri fjölskyldu.“
Líknardráp voru lögleidd í Belgíu árið 2002 og síðan þá hafa um 1.400 manns fengið aðstoð við að deyja á ári hverju. Árið 2013 voru lögin útvíkkuð og ná nú til barna sem þjást af ólæknandi sjúkdómum.
Það var Independent sem sagði frá.