Hjón í Kaliforníu, sem höfðu verið gift í nærri 75 ár, dóu með innan við dags millibili. Með því uppfylltu þau loforð sitt hvort til annars um að deyja í friði í örmum hvort annars. Börnin þeirra segja að þau Jeanetta og Alexander Toczko í San Diego hafi verið óaðskiljanleg allt frá því þau hittust fyrst þegar þau voru aðeins átta ára.
Turtildúfurnar fæddust bæði í Stamford í Connecticutríki árið 1919 og gengu í hjónaband árið 1940. Dóttir þeirra Aimee Toczko-Cushman sagði að „hjörtu þeirra hafa slegið sem eitt svo lengi sem ég man eftir“.
„Hann dó í örmum hennar, sem er nákvæmlega það sem hann hafði óskað sér. Hún faðmaði hann að sér og sagði: „Þetta er það sem þú vildir. Þú dóst í örmum mínum og ég elska þig. Ég elska þig, bíddu eftir mér. Ég verð hjá þér innan skamms.““
Alexander Toczko, 95 ára, var í bandaríska flotanum í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið vann hann fyrir sér í auglýsingabransanum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Þau fluttu á vesturströndina snemma á áttunda áratugnum. Þar kom hann á fót sínu eigin auglýsinga- og ljósmyndafyrirtæki, þar sem konan hans var aðalstílistinn. Hann hafði unun af því að spila golf, en heilsu hans tók að hraka eftir að hann braut mjöðm þegar hann datt nýlega.
Hann og kona hans, sem var 96 ára, sváfu hlið við hlið á hjúkrunarheimilinu þar sem þau dvöldu. 75 ára brúðkaupsafmæli þeirra var 29. júní, en þau héldu upp á það nokkrum dögum áður, umkringd fjölskyldu. Hann lést 17. júní, hún innan við 24 tímum síðar.
„Þau gengu inn um hlið himnaríkis hönd í hönd,“ sagði sonur þeirra, Richard Toczko.