Líta á Trump sem helsta tromp sitt

Trump er 69 ára gamall og segir eignir sínar nema …
Trump er 69 ára gamall og segir eignir sínar nema 8,7 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði 1.160 milljarða króna. AFP

Donald Trump, fjölskrúðugasti og fyrirferðarmesti auðkýfingur Bandaríkjanna, hefur nú augastað á Hvíta húsinu í Washington og einsetur sér að taka bandaríska kjósendur með trompi. Hann er þekktur fyrir að vera ómyrkur í máli og það kom því fáum á óvart að hvellur varð þegar hann tilkynnti framboð sitt 16. júní. Hvellurinn bergmálar enn í bandarískum fjölmiðlum.

Ástæðan er sú að hann móðgaði stóran kjósendahóp. „Þegar Mexíkóar senda okkur fólk senda þeir ekki þá bestu,“ sagði hann. „Þeir senda menn með mörg vandamál og þeir koma með vandamálin með sér. Þeir koma með eiturlyf. Þeir koma með glæpi. Þeir eru nauðgarar. Og sumir eru góðir menn, geri ég ráð fyrir.“

Þessi ummæli vöktu hörð viðbrögð í Bandaríkjunum og Mexíkó. Innanríkisráðherra Mexíkó, Miguel Angel Osorio Chong, sagði þau „fordómafull og fáránleg“.

Nokkrir íhaldssamir þingmenn Repúblikanaflokksins og framámenn í teboðshreyfingunni svonefndu hafa þó látið í ljósi stuðning við Trump í orrahríðinni. Einn þeirra, Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður frá Texas, sagði að Trump þyrfti ekki að biðjast afsökunar á ummælunum vegna þess að „hann sagði sannleikann“. Cruz er á meðal tólf repúblikana sem hafa tilkynnt framboð í forkosningum flokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári.

Aðrir forystumenn í Repúblikanaflokknum hafa hins vegar gagnrýnt ummælin. Reince Priebus, formaður landsnefndar flokksins, sagði að ummælin væru „ekki gagnleg“ í tilraunum flokksins til að auka fylgi sitt meðal kjósenda úr röðum þeirra sem eiga ættir að rekja til Rómönsku Ameríku. Þeir eru fjölmennasti minnihlutahópurinn í Bandaríkjunum og vægi þeirra í bandarískum stjórnmálum er að aukast.

Yfir ellefu milljónir innflytjenda frá Rómönsku Ameríku eru án dvalarleyfis í Bandaríkjunum og talið er að málefni þeirra verði á meðal helstu deilumálanna í komandi kosningum. Repúblikana greinir á um hvað gera eigi í málinu. Sumir þeirra vilja að ólöglegum innflytjendum verði vísað úr landi en aðrir að þeim verði veitt dvalarleyfi ef þeir eru ekki á sakaskrá, ef þeir hafa lært ensku, eru í vinnu og greiða skatta. Á meðal þeirra síðarnefndu er Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri Texas og einn frambjóðendanna í forkosningum repúblikana.

Guð demókrati með skopskyn?

Skoðanakannanir benda til þess að Donald Trump sé með næstmest fylgi meðal forsetaefna repúblikana í þeim ríkjum þar sem forkosningarnar fara fram fyrst. Hann nýtur meðal annars góðs af því að hann er þekktasti frambjóðandinn, auk þess sem málflutningur hans er talinn geta átt mikinn hljómgrunn meðal hvítra launþega. Trump hefur meðal annars lofað að takmarka vöruinnflutning frá Kína og gera fleiri ráðstafanir til að vernda bandarísk fyrirtæki.

Margir demókratar líta á framboð Donalds Trump sem himnasendingu og helsta tromp demókrata í baráttunni um atkvæði kjósenda í stærsta minnihlutahópnum. „Ég er trúaður maður – og framboð Donalds er aðeins hægt að rekja til þess að algóður Guð er demókrati með gott skopskyn,“ hefur The Washington Post eftir Paul Begala, einum af helstu pólitísku ráðgjöfum demókrata.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert