Sköpunarsinni í stól vísindaráðherra

Lars Løkke Rasmus­sen, formaður Venstre, hefur valið sköpunarsinna sem ráðherra …
Lars Løkke Rasmus­sen, formaður Venstre, hefur valið sköpunarsinna sem ráðherra vísindamála í minnihlutastjórn sinni. AFP

Nýr ráðherra mennta- og vísindamála í dönsku ríkisstjórninni, Esben Lunde Larsen, telur að guð hafi skapað jörðina og segist ekki hafa tekið afstöðu til þess hversu gömul hún sé. Larsen varð umdeildur í fyrra þegar hann vildi kalla alla blökkumenn „negra“.

Larsen tilheyrir hægriflokknum Vinstri, flokki Lars Løkke Rasmussen, sem myndaði minnihlutastjórn eftir þingkosningar í síðasta mánuði. Hann kemur frá svonefndu biblíubelti í Rinkøbing þar sem hann hlaut 11.000 atkvæði. Í viðtali við Jótlandspóstinn segist Larsen telja að skapandi guð standi að baki tilvist mannsins en til þess hvernig Guð hafi skapað manninn hafi hann ekki tekið afstöðu.

Hinn 36 ára gamli Larsen var einnig spurður hvort hann teldi að heimurinn hefði orðið til í Miklahvelli eins og vísindamenn hafa komist að.

„Ég held að skapandi guð standi að baki mestum hluta heimsins og hvernig hann varð til, já, Biblían gefur eina skýringu og vísindin gefa sína skýringu. Það skiptir mig ekki máli. Það sem skiptir máli er að heimurinn er til og að ég, sem trúmaður trúi því að guð standi þar að baki,“ sagði nýi vísindamálaráðherrann.

Spurður um mismunandi fullyrðingar kristinna manna og vísindamanna um aldur jarðarinnar sagðist Larsen nánast aldrei hafa velt því fyrir sér.

Mótmæli gegn „pólitískri rétthugsun“

Í frétt Ekstrabladet kemur fram að mörgum hafi komið á óvart að Rasmussen hafi valið Larsen til að vera ráðherra í ríkisstjórn sinni, ekki síst eftir hneykslismál sem kom upp í janúar í fyrra. Þá hélt Larsen fast við það að kalla blökkumenn „negra“ í svari til Jótlandspóstsins.

„Ef ég þarf í framtíðinni að tala um manneskju sem er svört ætla ég að tala um hana sem negra vegna þess að það er það sem orðið nær réttilega yfir,“ sagði Larsen sem vildi með þessu mótmæla því sem hann taldi „pólitíska rétthugsun“.

Þá vildi hann ekki svara því hvort hann myndi tala um Barack Obama sem fyrsta „negrann“ til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert