44% með, 44% á móti

Nýlegustu skoðanakannanir um afstöðu Grikkja til þjóðaratkvæðagreiðslunnar á morgun gefa enga skýra niðurstöðu. Þjóðin virðist skiptast nær algjörlega jafnt í afstöðu sinni til spurningarinnar um hvort ganga eigi að skilmálum lánardrottna þjóðarinnar eða ekki.

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa varað við því að hafni gríska þjóðin skilmálunum geti hún endasenst út úr evrusvæðinu en forsætisráðherrann Alexis Tsipras og fjármálaráðherran Yanis Varoufakis saka þá á móti um hræðsluáróður.

Ýmsar sögusagnir eru á kreiki, meðal annars þess efnis að þeir sem eigi yfir 8.000 evrur muni þurfa að þola smá „klippingu“ en einnig er sagt að skortur geti orðið á matvælum og lyfjum í landinu.

Tsibras var þó hvergi banginn þegar hann steig á svið fyrir framan 25 þúsund stuðningsmenn sína í gærkvöldi þar sem hann hvatti þjóðina til að segja nei við afarkostum og snúa baki sínu við þeim sem hrella þá. „Enginn getur hunsað þessa ástríðu og bjartsýni,“ sagði Tsibras. Ekki langt frá átti sér stað svipuð samkoma þar sem 22 þúsund stuðningsmenn samþykkis skilmálanna komu saman og settu ótta sinn við útgöngu úr evrusvæðinu í orð.

Fjölmargir Grikkir hafa snúist yfir til „já“ stefnunnar eftir að ströngum gjaldeyrishöftum var komið á í landinu í síðustu viku. Skoðanakannanir benda til að rúmlega 44 prósent kjósenda muni samþykkja skilmálana en að tæplega 44 prósent muni hafna þeim.

Frá samstöðufundi já-sinna í gær.
Frá samstöðufundi já-sinna í gær.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka