Grikkir greiða atkvæði

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, greiddi atkvæði á kjörstað í Aþenu …
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, greiddi atkvæði á kjörstað í Aþenu morgun. AFP

Þjóðaratkvæðagreiðsla hófst klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma í Grikklandi um hvort þjóðin eigi að fallast á meiri aðhaldsaðgerðir í skiptum fyrir frekari fjárhagsaðstoð, eða neita því og eiga á hættu að vera vísað úr evrusamstarfinu.

Kjörstaðir verða opnir til fjögur í dag að íslenskum tíma, en mögulegt er að þeir verði opnir tveimur tímum lengur. Loki kjörstaðir á réttum tíma má búast við fyrstu tölum klukkan 18:00 í kvöld.

Evrópusambandið og alþjóðlegir fjárfestar fylgjast með athygli með kosningunum, sem eru stærsta áskorun sem hefur orðið á vegi evrusamstarfsins síðan því var komið á fót árið 1999. Grikkir tóku upp evru tveimur árum síðar

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er allt annað en ljós, því kannanir benda til þess að báðar hliðar njóti jafnmikils stuðnings. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, segir að kjósi fólk „nei“ þá muni það styrkja stöðu hans í samningaviðræðunum við lánadrottna landsins. Leiðtogar Evrópusambandsins hafa hins vegar varað við því  að það myndu jafngilda því að samstarfi Grikklands og hinna evruríkjanna í gjaldeyrismálum væri sjálfhætt.

Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis sakaði lánadrottna landsins í gær um „hryðjuverkastarfsemi“ með því að sá fræjum ótta í hugum kjósenda. Hann sagði að það væru engar lagalegar leiðir til að þvinga Grikkland út úr evrusamstarfinu, sem átti að vera „óafturkræft“ myntsamstarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert