Grikkir leggja fram tilboð á morgun

AFP

Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras og kanslari Þýskalands, Angela Merkel, ræddu saman í síma í morgun og sammæltust um að Grikkir myndu leggja fram ný samningsdrög á fundi evru-ríkjanna á morgun. 

Svo virðist sem að það hafi verið harkaleg lending hjá ýmsum í morgun í Grikklandi eftir fagnaðarlætin í gærkvöldi og nótt eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar lá fyrir.

Langar biðraðir eru við hraðbanka og svo virðist sem 20 evru seðlar séu uppurnir og einungis hægt að taka út 50 evrur en ekki þær 60 evrur sem fjármagnshöftin kveða á um. 

Eins virðist ýmsum brugðið við fréttir af afsögn fjármálaráðherra landsins í morgun.

Lyfsalinn Lambros Vritios segir í samtali við AFP fréttastofuna að hann óttist að á næstu dögum verði ekkert reiðufé að fá í landinu og þetta sé eitthvað sem stjórnvöld verði að bjarga fyrir lok vikunnar. Að öðrum kosti leggist Grikkland á hliðina. Vritios hafði reynt að taka út peninga í nokkrum hraðbönkum en þeir hafi allir verið tómir.

Óvíst er hvort Seðlabanki Evrópu muni leggja grískum bönkum til fé og að sögn Nikos, sem starfar í úraverslun óttast hann að Evrópa misskilji niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og haldi að Grikkir vilji yfirgefa evru-svæðið. „Ég hef ekki trú á því að bankarnir opni á morgun... Við skuldum birgjum okkar fé og við getum ekki greitt þeim. Svo lengi sem við eigum birgðir þá getum við selt en við getum ekki greitt laun,“ segir Nikos í samtali við AFP.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert