Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, segist sannfærður um að honum takist að skila inn raunhæfum tillögum að samningi við lánadrottna á tilsettum tíma. Þetta kom fram í máli hans er hann ávarpaði Evrópuþingið í Strassborg í morgun.
Grísk stjórnvöld fengu í gær frest til sunnudags til þess að skila inn tillögum að samkomulagi við lánadrottna landsins.
Tsipras segist fullviss um að á næstu tveimur til þremur dögum muni ríkisstjórn Grikklands takast að leggja fram tillögur þar sem hagsmunir Grikklands og evru-svæðisins verða hafðir að leiðarljósi.
Púað og fagnað á sama tíma
Orðum hans var tekið á ýmsan hátt, allt frá púi til fagnaðarláta Evrópuþingsmanna. „Tillögur okkar um fjármögnun skuldbindinga okkar og endurskipulagningu skulda munu ekki verða byrðar á herðum evrópskra skattgreiðenda,“ segir Tsipras.
Leiðtogar evruríkjanna samþykktu á neyðarfundi í gærkvöldi að gefa Grikkjum frest til fimmtudags til þess að kynna nýtt tilboð sem verði grundvöllur að samkomulagi við lánadrottna. Eins var boðað til fundar allra leiðtoga ríkja Evrópusambandsins á sunnudag en hingað til hafa fundarhöldin verið miðuð við ráðherra evruríkjanna. Fjármálaráðherrar evruríkjanna munu ræða tillögur Grikkja á fundi á laugardag.
Gæti þýtt gjaldþrot Grikklands
Málefni Grikklands eru nú til umræðu á Evrópuþinginu og auk Tsipras hefur forseti Evrópuráðsins, Donald Tusk, tjáð sig á þinginu. Hann segir að það séu aðeins fjórir dagar til stefnu til að ná samkomulagi.
Tusk, sem talaði á undan Tsipras í morgun, varar við því að ef ekki tekst að ná samkomulagi geti þýtt gjaldþrot Grikklands sem hefði í för með sér mikinn vanda víðar í Evrópu.
Formlega óskað eftir frekari aðstoð
Tsipras hvetur alla til þess að vinna saman í þessu máli svo komið verði í veg fyrir sundrung í Evrópu.
„Þetta er evrópskt vandamál sem krefst evrópskrar lausnar... við megum ekki leyfa þessu að sundra Evrópu,“ sagði hann.
Tsipras segir að Grikkland, sem hefur þurft að taka á sig harkalegan niðurskurð í stað þess að vera bjargað í tvígang af ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá árinu 2010, hafi verið notað sem niðurskurðartilraunastöð fyrir önnur ríki Evrópu.
Björgunarsjóður evrusvæðisins (ESM) tilkynnti í morgun um að það hefði borist formleg beiðni um aðstoð frá Grikkum um nýja neyðaraðstoð.