16 ára morðmál loks upplýst

Kristin Juel Johannessen
Kristin Juel Johannessen

Allt bendir til þess að loks sé búið að upplýsa um morð á tólf ára gamalli norskri stúlku fyrir sextán árum. Maðurinn sem er í haldi lögreglu var handtekinn og dæmdur fyrir morðið á sínum tíma en síðar sýknaður.

Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla hefur lögreglan boðað til blaðamannafundar klukkan 14 í dag, klukkan 12 að íslenskum tíma vegna málsins. Bein útsending verður á nánast öllum fjölmiðlum Noregs af fundinum.

Kristin Juel Johannessen frá Østre Hedrum við Larvik fannst myrt þann 5. ágúst 1999. Stúlkan, sem var tólf ára gömul, hafði hjólað heiman frá sér til vinkonu sinnar sem hún hafði mælt sér mót við en hún kom aldrei til vinkonunnar. Síðar um kvöldið fannst hún myrt í skógi þar skammt frá. Réttarmeinarannsókn leiddi í ljós að hún hafði verið kyrkt.

Maðurinn sem nú var handtekinn er sá hinn sami og var dæmdur fyrir morðið á stúlkunni, samkvæmt heimildum norska ríkisútvarpsins, Aftenposten og VG.

Verjandi mannsins, Øyvind Hellenes, staðfestir í samtali við NRK að skjólstæðingur hans sé í haldi lögreglu en hann viti ekki fyrir hvaða sakir. Hellenes segir skjólstæðing sinn taka handtökunni með ró.

Tveir menn voru ákærðir fyrir morðið á sínum tíma. Sá fyrri var á sextugsaldri (54 ára) og var hann ákærður fyrir morðið á Johannessen. Hann var síðan sýknaður fékk hann 700 þúsund norskar krónur í miskabætur.

Síðar var maður rúmlega tvítugur (23 ára) handtekinn og ákærður. Hann var dæmdur í tólf ára fangelsi í héraðsdómi en dómurinn var byggður á lífsýni úr hári. Dómnum var áfrýjað og hann sýknaður áður en málið var tekið fyrir í hæstarétti. Voru manninum greiddar 500 þúsund norskar krónur í miskabætur. Það er sá maður sem nú er í haldi lögreglu.

Lögreglan í Vestfold hefur ekki viljað veita frekari upplýsingar um málið aðrar en að blaðamannafundur verði haldinn klukkan 14 að norskum tíma.

Maðurinn sem um ræðir var handtekinn í maí árið 2000 og í desember 2001 var hann dæmdur í héraðsdómi Larvik fyrir að hafa kyrkt og myrt stúlkuna. Ástæðan fyrir því að áfrýjunin var ekki tekin fyrir í hæstarétti var sú að fram komu nýjar upplýsingar um að hársýnið sem dómurinn byggði á var ekki úr karli heldur óþekktri konu og gat því ekki verið úr manninum sem var dæmdur fyrir morðið.

Af blaðamannafundi lögreglunnar í Larvik:

Fram kemur í máli lögreglu að maðurinn hafi verið handtekinn í gærkvöldi en hann er búsettur í Vestfold. Handtakan nú byggir á nýjum tæknilegum upplýsingum sem eru svo afgerandi að maðurinn, sem er nú 38 ára gamall, var handtekinn á heimili sínu. Maðurinn er frá Larvik. 

Fram kom á fundinum að í fyrrasumar hafi sálfræðingur farið yfir gögn málsins og benti lögreglunni á hluti sem ákveðið var að skoða nánar. Með nýrri tækni hefur verið hægt að greina hluti sem ekki var hægt með þeirri tækni sem til staðar var fyrir 16 árum síðan.

Að sögn lögreglunnar sýndi maðurinn ekki mótþróa við handtökuna og er hann nú í haldi á grundvelli upplýsinga sem komu fram í DNA rannsókn á efnisbút. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir manninum á hádegi á morgun og verður það gert fyrir luktum dyrum. Rannsókn málsins verður framhaldið í sumar. 

Ættingjar stúlkunnar voru upplýstir um málið í gærkvöldi og þrátt fyrir að maðurinn hafi verið sýknaður á sínum tíma gaf lögreglan í Larvik málið aldrei frá sér. Segir lögreglan að þegar mál sem þetta upplýsist ekki sé einfaldlega ekki hægt að leggja það endanlega til hliðar. Lögreglan vonast nú til þess að loksins verði upplýst hver myrti Kristin Juel Johannessen.

Hér er málið rakið 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert