Mannréttindum fórnað fyrir samning?

Malasía er eitt þeirra ríkja sem stendur sig hvað verst …
Malasía er eitt þeirra ríkja sem stendur sig hvað verst þegar kemur að mansali. AFP

Bandaríkin hyggjast færa Malasíu upp um flokk á lista yfir þau ríki þar sem mansal er hvað umfangsmest, en aðgerðin greiðir leiðina fyrir fríverslunarsamning við Malasíu og ellefu önnur ríki í suðausturhluta Asíu.

Í fyrra færði bandaríska utanríkisráðuneytið Malasíu í neðsta flokk (Tier 3) á lista yfir þau ríki sem standa sig verst þegar kemur að mansali, en önnur ríki í þeim flokki eru t.d. Norður-Kórea, Íran og Sýrland.

Eins og sakir standa er stjórnvöldum óheimilt að gera viðskiptasamninga við lönd í téðum flokki en leiða má líkur að því að með því að færa Malasíu upp um flokk sé verið að fara í kringum þann tálma á vegferðinni að fríverslunarsamningi við ríkin handan Kyrrahafsins.

Samkvæmt Reuters höfðu bandarískir þingmenn og mannréttindasinnar gert ráð fyrir að Malasía yrði áfram í neðsta flokki, m.a. vegna þess hve fáir dómar falla í mansalsmálum í landinu. Þá vakti það athygli og fordæmingu alþjóðasamfélagsins þegar fjöldagrafir fundust í mansalsbúðum nærri landamærunum við Taíland.

Mannréttindasinnar óttast að ákvörðun bandarískra stjórnvalda muni draga úr trúverðugleika Bandaríkjanna þegar kemur að mannréttindamálum.

Þingmaðurinn Robert Menendez, sem hefur barist fyrir því að svokölluð Tier 3-ríki verði útilokuð frá umræddum fríverslunarsamningi, segir m.a. að ákvörðunin grafi undan tilraunum til að fá ríkin til að taka á málum. Þá segir Phil Robertson, aðstoðarframkvæmdastjóri Asíudeilar Human Rights Watch, að litið verði á ákvörðunina sem pólitísk verðlaun frá Bandaríkjunum, sem Malasía hafi gert lítið til að verðskulda.

Reuters og Huffington Post sögðu frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert