Rannsakaði málið upp á eigin spýtur

Kristin Juel Johannessen var myrt árið 1999.
Kristin Juel Johannessen var myrt árið 1999.

Norska dagblaðið Verdens gang hefur í dag rifjað upp gamalt viðtal við karlmanninn sem var handtekinn í dag fyrir morðið á ungri norskri stúlku árið 1999. Viðtalið var tekið árið 2001 en hann var síðar dæmdur fyrir morðið áður en hann var svo sýknaður á efra dómstigi.

Í viðtalinu sagðist hann saklaus og hefur hann haldið fram sakleysi sínu alla tíð síðan þá. 

„Ég er enginn barnamorðingi. Líf mitt hefur umturnast eftir handtökuna. Ég er mjög stressaður. Allt líf mitt hefur stöðvast hér og nú,“ sagði maðurinn og kvartaði mikið undan vinnubrögðum lögreglunnar. 

„Vinnubrögðin hræða mig. Þeir tala eins og kenningar þeirra séu heilagur sannleikur. Þeir hafa engin skýr sönnunargögn. Mér líður eins og þeir vilji ganga endanlega frá mér. Ég bind hins vegar vonir við að óháður dómstóll vinni eftir betri vinnubrögðum.“

„Það verður fínt þegar þetta mál verður búið. En það er smá möguleiki á því að ég verði dæmdur, ég er mjög stressaður yfir því,“ sagði maðurinn.

Í vitnisburði sínum sagðist maðurinn vera friðarsinni og að sér gæti ekki dottið í hug að skaða aðra manneskju með þeim hætti sem stúlkan var myrt. Sagði hann það ástæðuna fyrir því að hann hafi ákveðið að sleppa við að sinna herskyldu sinni.

Skipuð var sérstök rannsóknarnefnd

Eins og mbl.is greindi frá í dag þá hóf lögreglan að rannsaka málið eftir að sálfræðingur tók að skoða málið upp á eigin spýtur og benti lögreglunni á nokkur áhugaverð atriði sem höfðu ekki verið rannsökuð nægilega vel á sínum tíma. 

Sálfræðingurinn heitir Clas Fredric Andersen og eyddi hann frítíma sínum í nokkra mánuði í að skoða málið. Áhugi hans á málinu vaknaði eftir að hann vann störf fyrir lögregluna í Vestfold fyrir nokkrum árum síðan. Gat hann ekki hætt að hugsa um málið og ákvað að skoða það betur.

„Ég settist niður í friði og ró og renndi í gegnum öll gögn málsins. Þegar hann greindi lögreglunni frá rannsókn sinni var ákveðið að skipa nefnd sem myndi fara yfir niðurstöður hans. Nefndin skilaði síðan af sér skýrslu þar sem mælst var til þess að lögreglan myndi aftur rannsaka ákveðin atriði málsins, og í kjölfarið var hinn sýknaði maður handtekinn á ný, 16 árum eftir morðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert