Hljóti tillaga grískra stjórnvalda um næstu skref í átt að lausn á skuldavanda ríkisins náð fyrir augum lánardrottna, verður samkomulag borið undir átta þjóðþing og tvisvar í Þýskalandi. Hindranirnar í veginum eru enn margar.
Í mörgum aðildarríkjum evrusamstarfsins er enginn vafi uppi um samþykkt, að því gefnu að evrópsku stofnanirnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veiti blessun sína. Annars staðar, t.d. í Slóvakíu og Lettlandi, er málið flóknara og verður enn umdeildara ef endanleg niðurstaða felur í sér einhvers konar skuldaniðurfærslu.
Ekki verður gengið til atkvæða um málið á þjóðþingum í Belgíu, Lúxemborg og Litháen, né á Kýpur, Ítalíu, Spáni eða Portúgal. Þá verður samkomulagið líklega ekki borið undir atkvæði á þingi Slóvena, nema samið verði um afskriftir.
Í Hollandi mun löggjafinn sjálfur ákveða hvort efnt verður til atkvæðagreiðslu, og á Írlandi gætu ráðamenn sömuleiðis ákveðið að endurnýja umboð sitt á þinginu, jafnvel þótt það sé ekki skilyrði.
Í Finnlandi mun alsherjarnefnd 25 þingmenna veita stjórnvöldum umboð til að ganga til samninga og gert er ráð fyrir að samþykkt sé nokkuð örugg í tilviki Eistlands, Austurríkis og Frakklands. Ráðamenn í Slóvakíu og Lettlandi eru hins vegar ekki jafn sannfærðir um að geta aflað frekari björgun stuðnings, og í Þýskalandi er Angela Merkel kanslari í erfiðri aðstöðu pólitískt, þótt líklega hafi hún atkvæðafjöldann til að tryggja framgöngu málsins.
Björninn er því ekki unninn þótt aðilar komist að samkomulagi um helgina, og gera má ráð fyrir fjölda viðræðna og umræða um málið, og atkvæðagreiðslu í ríkjunum átta, þar með talið Grikklandi.