Fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa slitið fundi og verður honum framhaldið á morgun. Efni fundarins er Grikkland og neyðarlán til handa landinu.
Jeroen Dijsselbloem, leiðtogi Evrópuráðsins, segir viðræðurnar erfiðar en þeim miði áfram. Efnahagsmálaráðherra Grikklands, Giorgos Stathakis, segir í viðtali við BBC að ríkisstjórn hans sé skuldbundin til þess að halda áfram viðræðunum en mikill meirihluti gríska þingsins samþykkti tillögur ríkisstjórnar Alexis Tsipras þrátt fyrir að meðal þess sem þar kemur fram séu hlutir sem gríska þjóðin hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta sunnudag.
Finnska þingið hefur ákveðið að það muni ekki samþykkja nýjan neyðarsamning fyrir Grikki, segir í fréttum finnskra fjölmiðla í dag. Ákvörðun Finna um að hvetja til þess að Grikkjum verði úthýst úr evrusamstarfinu kemur í kjölfar þess að Perussuomalaiset (Sannir Finnar) sem er annar stærsti flokkurinn á finnska þinginu hótuðu að slíta stjórnarsamstarfinu ef ríkisstjórnin myndi standa við bakið á nýjum björgunarpakka fyrir Grikki. Flokkurinn er afar andsnúinn Evrópusambandinu.
Á finnska þinginu er það ráð skipað 25 af þeim 200 þingmönnum sem sitja á finnska þinginu sem veitir ríkisstjórninni umboð til þess að semja um neyðaraðstoð við Grikki. Félagar í ráðinu hittust á fundi í Helsinki síðdegis til þess að taka sameiginlega ákvörðun í málinu, samkvæmt frétt ríkisfréttastofunnar YLE.
Fjármálaráðherra Finnlands, Alexander Stubb, er á fundi evruráðherra í Brussel. Hann skrifaði á Twitter í kvöld að hann gæti ekki upplýst um ákvörðun ráðsins á meðan viðræður stæðu enn yfir um neyðaraðstoð við Grikki.
Formaður Sannra Finna, Timo Soini, er utanríkisráðherra Finnlands og hann hefur ítrekað lýst því yfir að hann styðji brotthvarf Grikkja úr evrusamstarfinu (Grexit). Hann segir að það sé mun betra fyrir Grikkland að hætta með evruna.
Á morgun munu leiðtogar Evrópusambandsríkjanna ræða um nýjasta björgunarpakkann til handa Grikkjum. Þetta er í þriðja skiptið á nokkrum árum sem þeim er komið bjargar og er nýi björgunarpakkinn metinn á yfir 80 milljarða evra.
Þýsk yfirvöld hafa varað við því að viðræðurnar séu afar erfiðar og heimildir AFP herma að fjármálaráðuneyti Þýskalands hafi látið vinna áætlun um brotthvarf Grikkja úr evrusvæðinu í fimm ár hið minnsta ef tilboð þeirra verður ekki betrumbætt.