Það er allt á suðupunkti í Brussel enda mikið í húfi þar sem tekist er á um framtíð Grikkja í evrusamstarfinu. Fundi leiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins hefur verið aflýst en fjármálaráðherrar evruríkjanna hefja fund á nýjan leik. Ólíklegt er að samþykkt verði að veita Grikkjum neyðarlán í dag.
Mikilvægur dagur í sögu Grikklands er runninn upp en í dag verður tekin ákvörðun um hvort Grikkir fái afgreitt neyðarlán frá alþjóðlegum lánardrottnum. Fjármálaráðherrar evruríkjanna slitu fundi seint í gærkvöldi og verður þeim fram haldið í dag. Viðræðurnar eru erfiðar og enn allt óljóst um framhaldið.
Uppfært klukkan 8:16
Ákveðið hefur verið að hætta við fund leiðtoga Evrópusambandsins sem halda átti í Brussel í dag en fjármálaráðherrar evruríkjanna munu halda fundahöldum áfram.
Valdis Dombrovskis, sem fer með evrumál í framkvæmdastjórn ESB, segir að það sé ólíklegt að gefið verði grænt ljós á að hefja viðræður um björgunarpakka fyrir Grikki í dag. „Ég tel það tiltölulega ólíklegt að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fái umboð til þess að hefja formlegar viðræður um nýjan lánasamning,“ sagði Dombrovskis við fréttamenn í Brussel í morgun.
„Ég hef aflýst EUCO (leiðtogaráðs ESB) fundi sem halda átti í dag,“ skrifar Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, á Twitter. Hann bætir því við að leiðtogar evruríkjanna muni hittast á fundi í Brussel klukkan 14 að íslenskum tíma og þeim fundi verði fram haldið þar til komist verði að niðurstöðu um Grikkland.
Snýst um framtíð Evrópusambandsins
Þýska dagblaðið Der Spiegel hvetur kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, til þess að koma í veg fyrir brotthvarf Grikkja úr evrusamstarfinu (Grexit) í dag. Í blaðinu segir að í dag sé mikilvægasta stundin í kanslaraembætti hennar runnin upp. Sú stund snúist ekki um neitt minna en framtíð Evrópusambandsins.
Á fimmtudag lagði forsætisráðherra Grikklands fram tillögur ríkisstjórnarinnar um niðurskurð og aðgerðir til þess að bæta efnahag landsins. Tillögurnar, sem ekki voru ólíkar þeim sem gríska þjóðin hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir viku, voru samþykktar á gríska þinginu aðfaranótt laugardags.
En ekki eru öll ríki ESB ánægð með tillögur Grikkja og telja að ekki sé nægjanlega langt gengið í niðurskurði. Í gær fréttist síðan af skjali sem unnið var í þýska fjármálaráðuneytinu þar sem aðgerðaáætlun um brotthvarf Grikkja úr evrusamstarfinu er lýst. Þar er gert ráð fyrir að Grikkir fari tímabundið, fimm ár hið minnsta, út úr samstarfinu. Finnar eru þar sammála og samkvæmt fréttum finnskra fjölmiðla hafa Sannir Finnar hótað því að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu verði Grikkjum veitt frekari aðstoð.
Jeroen Dijsselbloem, leiðtogi Evrópuráðsins, segir að meðal þess sem hafi verið rætt á fundi fjármálaráðherranna í gær sé trúverðugleiki og traust en svo virðist sem fjármálaráðherrar evruríkjanna fari varlega í að trúa og treysta á það að grísk yfirvöld standi við þær skuldbindingar sem þau heita að þessu sinni.
„Við höfum ekki lokið viðræðum okkar. Þær eru erfiðar en þær standa enn yfir,“ sagði Dijsselbloem þegar fundi var slitið í gærkvöldi eftir níu klukkustunda fund. Fundurinn hefst að nýju klukkan níu að íslenskum tíma.
Þrátt fyrir fréttir að heiman um möguleg stjórnarslit var Alexander Stubb, fjármálaráðherra Finnlands, hvergi banginn þegar hann ræddi við fjölmiðla seint í gærkvöldi. „Okkur miðar vel,“ sagði hann en samkvæmt fréttum finnskra fjölmiðla ákvað finnska þingið í gær að það myndi ekki samþykkja nýjan neyðarsamning fyrir Grikki.
Ákvörðun Finna um að hvetja til þess að Grikkjum verði úthýst úr evrusamstarfinu kemur í kjölfar þess að Perussuomalaiset (Sannir Finnar), sem er annar stærsti flokkurinn á finnska þinginu, hótaði að slíta stjórnarsamstarfinu ef ríkisstjórnin myndi standa við bakið á nýjum björgunarpakka fyrir Grikki. Flokkurinn er afar andsnúinn Evrópusambandinu.
Á finnska þinginu er ráð skipað 25 af þeim 200 þingmönnum sem sitja á þinginu sem veitir ríkisstjórninni umboð til þess að semja um neyðaraðstoð við Grikki. Félagar í ráðinu hittust á fundi í Helsinki síðdegis til þess að taka sameiginlega ákvörðun í málinu, samkvæmt frétt ríkisfréttastofunnar YLE.
Pierre Moscovici, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og er sá sem hefur yfirleitt sýnt Grikkjum mesta samúð, sagði eftir fundinn í Brussel í gær að hann væri alltaf vongóður þegar hann var spurður út í gang viðræðna um framtíð Grikkja innan myntbandalagsins.
Fjármálastofnanir fóru fram á nýja og endurbætta áætlun frá forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, vegna þriðja björgunarpakkans sem óskað hefur verið eftir. Er nú rætt um að Grikkir fái neyðarlán sem metið er á yfir áttatíu milljarða evra.
Efast um að hægt sé að treysta Grikkjum
Tillögur Grikkja fela í sér skattahækkanir og niðurskurð á almannatryggingum og aðrar úrbætur í efnahagsmálum sem alls eru metnar á um 13 milljarða evra. Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schaeuble, var fljótur að slá á væntingar Grikkja um að tillagan yrði samþykkt af fjármálaráðherrum evruríkjanna án breytinga í gærmorgun. Hann sakar stjórnvöld í Grikklandi um að hafa ítrekað gengið á bak orða sinna þegar kemur að því að standa við skuldbindingar.
„Við getum örugglega ekki treyst loforðum,“ segir Schäuble. „Undanfarna mánuði hefur vonum okkar verið eytt með ótrúlegum hætti, jafnvel núna síðast fyrir nokkrum klukkustundum,“ bætti hann við í gær.
En það er ekki nóg að leiðtogar ríkjanna samþykki að veita Grikkjum neyðarlán því að minnsta kosti átta þjóðþing aðildarríkja þurfa að greiða atkvæði um samninginn áður en gengið er frá honum. Þar á meðal er þýska þingið og þar þarf að greiða atkvæði tvisvar.
Eymd Grikka vex
En á sama tíma og leiðtogar ríkja Evrópu og alþjóðlegar lánastofnanir ræða framtíð Grikklands eykst eymd íbúa landsins. Grískir bankar hafa nú verið lokaðir í tvær vikur og hefur fólk aðeins getað tekið út 60 evrur á dag í hraðbönkum landsins. En það er ekki nóg að geta tekið út því margir hraðbankar eru tómir og er byrjað að bera á matar- og lyfjaskorti í landinu, segir í frétt BBC.