„Fjölmiðlar eru lygarar. Fjölmiðlamenn eru hörmulegir menn. Ekki allir, en margir,“ sagði auðjöfurinn umdeildi Donald Trump í ræðu í bandarísku borginni Phoenix í gær. Trump gefur kost á sér sem forsetaefni repúblikana, en hann hefur lagt mikinn þunga í innflytjendamál í ræðum sínum og verið sérdeilis harðorður í garð nágrannaríkisins Mexíkó.
„Skyldi mexíkóska ríkisstjórnin hafa sent þá hingað?“ spurði hann m.a. þegar fámennur hópur mótmælenda mætti með spjöld á lofti. Trump hefur heitið því að sekta Mexíkó um 100 þúsund Bandaríkjadali fyrir hvern einstakling sem kemur ólöglega frá landinu til Bandaríkjanna. „Þögli meirihlutinn hefur snúið aftur og við ætlum að endurheimta landið okkar,“ sagði Trump.
Þá gagnrýndi hann frambjóðandann Jeb Bush, en þeir hafa mælst með svipað fylgi í skoðanakönnunum. „Hvernig get ég verið jafn þessum gaur. Hann er ömurlegur.“ Hann sagði að Bush myndi reynast lélegur samningamaður á alþjóðavettvangi áður en hann ræddi um eigin fyrirætlanir í málaflokknum. Þannig hyggst hann m.a. „gjöreyða“ ISIS hryðjuverkasamtökunum. „ISIS eru að byggja hótel í Írak í þessum töluðu orðum. Þeir eru í samkeppni við mig. Ég mun eyða þeim svo hratt,“ sagði Trump.
Hann skaut síðan föstum skotum að þeim stórstjörnum og fyrirtækjum sem hafa skorið á tengsl sín við hann undanfarið. „Þúsundir klippa nú Macy‘s kreditkortin sín,“ sagði Trump og vísaði þar til meintrar óánægju viðskiptavina eftir að verslunin tók fatalínu hans úr sölu.
Frétt mbl.is: Trump sýnir ekki fæðingarvottorð
Athygli vakti á dögunum þegar Trump neitaði að opinbera fæðingarvottorð sitt, en árið 2012 hélt hann því fram að Barack Obama Bandaríkjaforseti væri fæddur utan Bandaríkjanna og fór fram á samsvarandi gögn frá honum. Obama hafnaði beiðninni, en Trump sagði fyrir vikið að hann væri „ógagnsæjasti forseti sögunnar“.
Frétt mbl.is: Trump gerir Obama tilboð