„Þetta er valdarán“

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Francois Hollande, forseti Frakklands, og Alexis …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Francois Hollande, forseti Frakklands, og Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, ræðast við í dag. AFP

Miklar umræður eiga sér stað á samfélagsmiðlum um kröfur Evrópusambandsins til Grikkja um frekari aðhaldsaðgerðir og hefur verið sköpuð sérstök merking á Twitter vegna málsins sem nýtur mikilla vinsælda en það er #ThisIsACoup eða „Þetta er valdarán“. Er þar vísað til strangra skilyrða sem leiðtogar evruríkjanna vilja gera til Grikklands. Breska dagblaðið Guardian greinir frá þessu í kvöld en þar kemur fram að Twitter-færslur merktar hafa verið með þessum hætti í dag og í kvöld séu orðnar um eitt hundrað þúsund.

Grísk stjórnvöld hafa lýst sig andvíg hluta af skilyrðum leiðtoga evruríkjanna en fullyrt er að þau feli í raun í sér að Grikkir afsali sér fjárhagslegu fullveldi sínu. Meðal annars er krafist þess samkvæmt tillögu leiðtoganna að grískir ráðamenn framselji yfirráðin yfir ríkiseignum að verðmæti 50 milljarða evra í hendur evrusvæðisins sem tryggingu fyrir því að gripið verði til umfangsmikilla einkavæðinga í landinu. Verði ekki staðið við þær aðgerðir verði eignirnar seldar án aðkomu grískra stjórnvalda og án samþykkis þeirra.

Fullyrt hefur verið samkvæmt fréttvef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem er einn alþjóðlegra lánardrottna Grikklands ásamt Evrópusambandinu og Evrópska seðlabankanum, vilji losna við Alexis Tsipras úr stóli forsætisráðherra landsins. Hafa þær fréttir ekki síst hleypt illu blóði í fólk miðað við samfélagsmiðla. Sama virðist eiga við um hugmyndir um að Grikkjum verði vísað tímabundið af evrusvæðinu náist ekki samkomulag um skuldavanda þeirra.

Óvíst er hvenær fundi leiðtoga evruríkjanna lýkur en hlé er á honum þegar þessi orð eru rituð. Samkvæmt tillögu leiðtoganna er ætlast til þess að Grikkir festi í lög fyrir miðvikudaginn loforð um að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem sett eru sem skilyrði fyrir frekari lánveitingum til þeirra. Grískir ráðamenn hafa gagnrýnt tillögurnar harðlega sem fyrr segir og sagt að ætlunin með þeim sé að ganga milli bols og höfuðs á grísku þjóðinni.

Leiðtogar og fjármálaráðherrar evruríkjanna segja að skilyrðin séu nauðsynleg þar sem traust ríki ekki til Grikkja eftir það sem á undan er gengið. Er þá ekki síst vísað til þjóðaratkvæðisins um síðustu helgi um kröfur alþjóðlegra lánadrottna Grikklands. Talið er að Tsipras velti fyrir sér að boða til þingkosninga næsta haust takist ekki að mynda þjóðstjórn en hann komst til valda í síðustu kosningum í janúar. Flokkur hans er klofinn í afstöðu til frekar umbóta í landinu sem forsætisráðherrann telur að grípa þurfi til svo ná megi samkomulagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert