Stjórnvöld í Grikklandi verða að framselja yfirráðin yfir ríkiseignum að verðmæti 50 milljarða evra í hendur evrusvæðisins sem tryggingu fyrir því að ráðist verði í umfangsmikla einkavæðingu í landinu. Standi grískir ráðamenn ekki við kröfur um einkavæðingu verða eignirnar seldar.
Þetta kemur meðal annars fram í tillögu að samkomulagi um skuldavanda Grikklands sem sett var saman á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna í dag samkvæmt frétt breska dagblaðsins Guardian. Þar segir að verði tillagan að raunverulegu samkomulagi við grísk stjórnvöld yrði um að ræða gríðarlegt framsal á fullveldi. Jafnvel í tilfelli ríkis sem verið hafi undir eftirliti Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins síðustu fimm ár.
Þeim möguleika er haldið opnum í tillögu fjármálaráðherra evruríkjanna að Grikkland fari tímabundið út af evrusvæðinu ef grísk stjórnvöld fallast ekki á samkomulag við alþjóðlega lánardrottna landsins. Þjóðverjar höfðu áður lagt þá tillögu til. Náist samkomulag þurfa Grikkir líklega á bilinu 82-86 milljarða evra samkvæmt tillögu ráðherranna.