Verða að festa loforðin í lög

Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands.
Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands. AFP

Grikkir verða að hefja strax í næstu viku miklar umbætur í stjórnsýslu sinni og efnahagsmálum til þess að fá áframhaldandi lánafyrirgreiðslur frá alþjóðlegum lánardrottnum Grikklands og vera áfram innan evrusvæðisins. Þetta kemur fram í tillögum sem settar hafa verið saman á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna í dag.

Haft er eftir Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands, sem fer fyrir fjármálaráðherrum evrusvæðisins, að umræðum um málið sé lokið og að mikið hafi áunnist á fundinum. Nokkur stór mál séu þó enn óafgreidd. Alexander Stubb, fjármálaráðherra Finnlands, segir að Grikkir verði að festa í lög fjölmörg loforð um efnahagsumbætur fyrir miðvikudaginn.

„Ég tel að við séum með mjög góðar tillögur á borðinu sem fela í sér víðtæk skilyrði,“ segir Stubb ennfremur en Finnar eru í hópi þeirra evruríkja sem vilja gera miklar kröfur til Grikkja um umbætur. Meðal annars væru sett ströng skilyrði um umbætur á vinnumarkaði og í eftirlaunakerfinu, varðandi virðisaukaskatt og aðra skatta og um einkavæðingu.

Þeim möguleika er haldið opnum í tillögum fjármálaráðherra evruríkjanna að Grikkland fari tímabundið út af evrusvæðinu ef grísk stjórnvöld fallast ekki á samkomulag við alþjóðlega lánardrottna landsins. Þjóðverjar höfðu áður lagt þá tillögu til. Náist samkomulag þurfa Grikkir líklega á bilinu 82-86 milljarða evra samkvæmt tillögum ráðherranna.

Tillögur fjármálaráðherra evruríkjanna fara nú til leiðtogaráðs Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert