„Grikkir voru plataðir“

Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Í viðtali við New Statesman sem birtist í dag tjáir Yanis Varoufakis fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands sig í fyrsta skiptið frá því að hann var látinn taka pokann sinn í síðustu viku.

Viðtalið birtist í dag en var tekið áður en tilkynnt var um samkomulag Grikkja og lánardrottna þeirra. 

Varoufakis var umdeildur stjórnmálamaður þá fáu mánuði sem hann sat í ríkisstjórninni. Hann hafði aldrei verið meðlimur stjórnmálaflokks en hafði þó langa starfsreynslu sem prófessor í hagfræði. Margir telja að hann hafi verið látinn fara til þess að minnka núninginn í viðræðum Grikkja við lánardrottna og Evrópusambandið.

Ráðherrann fyrrverandi er ómyrkur í máli þegar hann greinir frá viðræðunum og ástæður þess að hann náði ekki árangri. „Það hefur ekkert með viðræðurnar að gera, viljinn var til staðar af okkar hálfu. Hins vegar hefðum við alveg eins getað mætt á fundi og sungið sænska þjóðsönginn,“ segir Varoufakis um viðbrögð viðsemjendanna við tillögum Grikkja.

Varoufakis yfirgaf stjórnmálin á eftirminnilegan hátt síðasta mánudag, daginn eftir að Grikkir höfðu hafnað tillögum lánardrottnanna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ók hann brott úr húsakynnum ríkisstjórnarinnar á mótorhjóli með leðurjakkann yfir stýrið og með eiginkonuna aftan á. 

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, er á meðal þeirra sem voru mest andsnúnir Varoufakis, að hans eigin sögn. Þjóðverjinn á að hafa orðið afar reiður yfir tillögum gríska kollega síns á fundum í síðasta mánuði.

Að sögn Varoufakis fékk gríska samningsnefndin oft að heyra það hversu litlu hún í raun og veru réði. „Samningstilboðið er eins og hestur. Annaðhvort farið þið á bak, eða þá er hesturinn dauður,“ var ítrekað sagt við samningsnefndina að sögn Varoufakis.

Um Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hafði hann eftirfarandi að segja. „Ég hafði engin samskipti við Merkel. Fjármálaráðherrar tala bara við fjármálaráðherra. Ég heyrði hins vegar út undan mér að hún hafi talað mjög rólega við Alexis Tsipras (forsætisráðherra Grikklands) og sagt honum að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur, þau myndu komast að niðurstöðu.“ Varoufakis telur það hins vegar hafa verið orðin tóm.

Reiðastur er Varoufakis vegna fjölmiðlaumfjöllunar í kjölfar neyðarfundanna. „Inni á fundum bárum við fram tillögur um hækkun skatta og heildstæðar breytingar sem við gátum innleitt með stuttum fyrirvara. Þegar við lögðum það til á fundum sögðu fulltrúar Evrópusambandsins að við mættum ekki breyta neinu, þá myndu forsendur viðræðnanna breytast. Síðan örfáum mánuðum síðar fara þessir fulltrúar í fjölmiðla og saka okkur um að sóa tímanum í stað þess að gera breytingar á skattkerfinu! Grikkir voru að mörgu leyti plataðir,“ segir Varoufakis. 

Varoufakis yfirgefur húsakynni grísku ríkisstjórnarinnar í síðasta skiptið á mótorhjóli.
Varoufakis yfirgefur húsakynni grísku ríkisstjórnarinnar í síðasta skiptið á mótorhjóli. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert