Litlu munaði að slitnaði upp úr viðræðum grískra stjórnvalda og alþjóðlegu lánardrottna þeirra á neyðarfundi þeirra í Brussel klukkan sex í morgun.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, töldu þá - eftir að hafa fundað í fjórtán klukkutíma - að lengra kæmust þau ekki. Viðræðurnar hefðu raunar siglt í strand og engin ástæða væri til að halda fundahöldunum áfram.
Brotthvarf Grikkja af evrusvæðinu hefði þá verið eini raunhæfi kosturinn.
En Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, meinaði þeim að yfirgefa fundarherbergið, samkvæmt frásögn Financial Times.
„Afsakið, en það kemur ekki til greina að þið yfirgefið þetta herbergi,“ sagði Tusk.
Samkvæmt heimildum Financial Times deildu þau Tsipras og Merkel fyrst og fremst um hvernig ætti að ráðstafa sérstökum sjóði um grískar ríkiseignir. Hver ætti að verða stærð hans og tilgangur.
Merkel vildi að sjóðurinn, sem er metinn á um fimmtíu milljarða evra, yrði notaður til að greiða niður níðþungar skuldir Grikkja. Tsipras gat ekki sætt sig við það. Hann vildi að sjóðurinn yrði mun minni að umfangi.
Samkomulag náðist að lokum, eins og kunnugt er. Það er til þriggja ára og hljóðar upp á björgunarpakka sem metinn er á 86 milljarða evra, 35 milljarða fjárfestingarpakka, loforð um afskriftir á hluta skulda og það sem er kannski það mikilvægasta í augnablikinu, fjármögnun til handa grískum bönkum.