Barþjónar á Hootananny Pub í Inverness í Skotlandi neita nú að klæðast hinu hefðbundna skotapilsi í vinnunni. Ástæðan er sú að þeir verða fyrir áreiti kvenkyns gesta þegar þeir klæðast pilsunum.
Eigandi barsins segir flest slík atvik koma upp um helgar þegar mikið er að gera á barnum. Eiga þá ölvaðar konur það til að vilja athuga hvort mennirnir séu „alvöru Skotar“, þ.e.a.s. hvort þeir séu naktir undir pilsunum.
„Stundum koma kvennahópar upp að þér þegar þú ert að sækja tóm glös og vilja fá að vita hvort þú sért „alvöru skoti.“ Síðan ákveða þær að best sé að komast að því sjálfar,“ segir Iain Howie, starfsmaður barsins.
„Fyrstu skiptin getur þetta verið fyndið en þegar það er mikið að gera og allir eru með glös í báðum höndum þá er maður varnarlaus. Á maður að sleppa glösunum í gólfið eða láta þær káfa á þér?“
Eigandi barsins, Kit Fraiser, tekur í sama streng og segir hegðunina kynferðislega áreitni. „Þeim finnst þetta fyndið en þetta er líka alvarlegt. Konurnar stinga höndunum upp undir pilsin. Getið þið ímyndað ykkur ef ég myndi stinga hendinni undir pilsið á stelpu á skemmtistað? Ég yrði réttilega færður á lögreglustöðina undir eins,“ segir Fraiser.
Starfsmenn staðarins eru því nú farnir að ganga um í buxum í vinnunni. „Ég hugsa vel um gestina mína en starfsmennirnir mínir skipta líka máli. Ég þvinga þá ekki til þess að gera eitthvað sem þeir vilja ekki. Karlarnir eru meðvitaðir um kynferðislega áreitni, konurnar verða að hugsa sinn gang,“ bætir Fraiser við.
Sjá frétt The Telegraph.