Ráðherra segir nei

Varnarmálaráðherra Grikklands, Panos Kammenos, ætlar ekki að samþykkja samninginn sem gerður var milli Grikkja og lánardrotta ríkisins í gærmorgun. Ef forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, tekst ekki að koma tillögunum í gegnum þingið fyrir lok dags á morgun er hætta á að bankar í landinu fari í þrot og að ríkinu verði gert að yfirgefa evrusvæðið.

Alls þarf að samþykkja fjögur frumvörp á gríska þinginu svo björgunarpakkinn nái fram að ganga. Má þar nefna lög um breytingar á eftirlaunakerfinu og breytingar á virðisaukakerfinu.

Fjármálaráðherrar allra Evrópusambandsríkjanna 28 munu hittast á fundi í Brussel í dag þar sem þeir munu ræða ástandið í Grikklandi, samkvæmt frétt BBC.

Eftir sautján tíma fund í Brussel um helgina þá náðu leiðtogar evruríkjanna og lánadrottnar samkomulagi um lánapakka, þann þriðja á fimm árum, til Grikkja. Lánasamningurinn er metinn á 86 milljarða evra og er hann til þriggja ára. Þrátt fyrir að tekið sé fram í samkomulaginu að ef nauðsyn þykir þá megi gera breytingar á afborgunum Grikkja á lánunum þá er hvergi kveðið á um afskriftir af skuldum þeirra líkt og gríska ríkisstjórnin hafði sóst eftir.

Þegar Tsipras snéri heim til Grikklands í gær voru mótmæli þegar hafin í landinu og hafa opinberir starfsmenn boðað sólarhrings verkfall. 

Fjölmargir Grikkir telja skilyrðin sem sett eru fyrir láninu afar harkaleg og hafa margir sett inn færslur á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #ThisIsACoup.

Kammenos er flokksmaður í þjóðernisflokknum Sjálfstæðum Grikkjum, sem er samstarfsflokkur Syriza, flokki Tsipras í ríkisstjórn.  Syriza fékk 36% atkvæða í þingkosningunum í janúar en Sjálfstæðir Grikkir fengu 4,7%. Hann líkir samningnum við valdarán og að hann muni ekki styðja lánasamkomulagið. Hann vill hins vegar ekki hætta í ríkisstjórninni, að því er fram kemur á vef BBC.

Fréttamaður BBC í Aþenu, Mark Lowen, segir að fastlega sé gert ráð fyrir því að forsætisráðherra muni gera breytingar á ríkisstjórn sinni og jafnvel mynda nýja stjórn fyrir lok vikunnar.

Enn eru bankar lokaðir í Grikklandi en þeir hafa verið lokaðir í rúmar tvær vikur. Að hámarki má taka 60 evrur út úr hraðbönkum. Ljóst er að bankarnir verða lokaðir á morgun líka enda berast ekki peningar frá lánardrottnum fyrr en þingið hefur samþykkt tillögurnar.

Neyðaraðstoðin þýðir að Grikkir verða að herða aðhald í ríkisrekstri og setja opinberar eignir að veði fyrir nýju lánunum. Sem veldur því að ríkisskuldir Grikkja aukast enn, munu nú svara til 200% af vergri landsframleiðslu.

*Grísk stjórnvöld munu stofna sjálfstæðan sjóð sem á að einkavæða ríkiseignir upp á alls um 50 milljarða evra. Hagnaðurinn verður notaður til að endurgreiða lán. Einnig verður hluti hans notaður í fjárfestingar.

*Grikkir verða að gera róttækar umbætur á rausnarlegu lífeyriskerfinu til þess að draga úr útgjöldum ríkisins.

*Gerðar verða umbætur í átt að raunverulegu markaðshagkerfi og stuðst við ráðleggingar Efnahags- og samvinnustofnunarinnar, OECD. Nefna má að verslanir mega hafa opið á sunnudögum til að auka veltu, eignarhald á apótekum, bakaríum og mjólkurbúðum verður einkavætt.

*Einkavæðing dreifkerfis raforku verður hafin ef ekki finnst önnur lausn sem talin er skila árangri á sviði samkeppni.

*Á vinnumarkaði verða gerðar róttækar breytingar varðandi verkföll og samningagerð, einnig verða settar nýjar reglur um hópuppsagnir í samræmi við reglur í öðrum Evrópuríkjum. Öll endurskoðun á þessum sviðum á að miða að því að ýta undir varanlegan hagvöxt.

*Tekin verða skref í þá átt að styrkja fjármálakerfið, ekki síst með það í huga að taka á vanda vegna lána sem í reynd eru töpuð. Jafnframt á að útiloka algerlega afskipti pólitíkusa af mannaráðningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert