Treysta ekki grísku ríkisstjórninni

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Yfir helmingur Þjóðverja er ánægður með framgöngu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í viðræðum hennar og annarra Evrópuleiðtoga við grísk stjórnvöld um skuldavanda Grikklands.

Þriðjungur hefði þó kosið að Grikkir segðu skilið við evrópska myntbandalagið og gæfu evruna upp á bátinn.

81% aðspurðra í nýrri könnun sem stofnunin Forsa gerði fyrir þýsku fjölmiðlana Stern og RTL efast um að grísku ríkisstjórninni takist að koma endurbóum í framkvæmd.

Alls töldu 55% Þjóðverja að Angela Merkel hefði staðið sig vel í maraþonviðræðunum sem leiddi loks til samkomulags um björgunarpakka til Grikkja að virði 68 milljarða evra. Á móti krefjast lánardrottnar landsins herts aðhalds í ríkisrekstri.

Samkvæmt annarri könnun Forsa, sem var gerð í seinustu viku, áður en samkomulag náðist, naut Merkel stuðnings 56% aðspurðra. Flokkurinn hennar naut óbreytts stuðnings, 42%.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, þarf nú að koma samningnum í gegn á gríska þinginu í síðasta lagi á miðikvudag. Óánægja ríkir meðal margra Grikkja en skilyrðin fyrir aukinni lánafyrirgreiðslu eru hörð og að sumu leyti er samningurinn verri en sá sem Grikkir höfnuðu í þjóðaratkvæði fyrir rúmum tveimur vikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert