Fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, segir að fjármunir breskra skattborgara verði ekki notaðir til þess að bjarga Grikkjum. Þetta herma heimildir BBC.
Á Osborne að hafa sagt við aðra ráðherra í ríkisstjórninni að það kæmi ekki til greina að nota fé frá ríkjum Evrópusambandsins í brúarlán í björgunarpakkanum. Því með því væri verið að brjóta gegn samkomulagi um að neyðarsjóður ESB verði ekki nýttur til þess að gangast í ábyrgð fyrir slíkum lánum.
Í dag munu fjármálaráðherrar ESB ríkjanna 28 hittast á fundi í Brussel og ræða málefni Grikklands.
Það var árið 2010 sem David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá því að hann náð fram samkomulagi um að Evrópski viðbragðasjóðurinn fyrir fjármálastöðugleika (e. European Financial Stabilisation Mechanism, EFSM) yrði ekki nýttur í fleiri björgunaraðgerðir evruríkja eftir að hann var notaður við að aðstoða Írland og Portúgal. Þess í stað myndi ábyrgðin vera í höndum evruríkjanna.
Í frétt Financial Times kemur fram að Martin Selmayr, starfsmannastjóri Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hafi hug á að fá að nota EFSm til þess fjármagna brúarlán. Samkvæmt FT eiga Frakkar að vera hrifnir af þeirri hugmynd.