Mikill hiti er í mótmælendum fyrir utan þinghúsið í Aþenu í Grikklandi. Í kvöld greiðir þingið atkvæði um samkomulag Grikklands við lánadrottna sína. Mótmælendur köstuðu meðal annars bensínssprengjum í átt að þinghúsinu og lögreglumönnum.
Mótmælendur segjast vera að mótmæla ólýðræðislegu samkomulagi. Fyrirhugaðar áætlanir stjórnvalda um lagasetningar munu verða erfiðar fyrir þjóðina en þær eru hluti af kröfu Evrópusambandsins sem Grikkir þurfa að uppfylla til að fá sitt þriðja neyðarlán.
Það er ekki bara þjóðin sem er klofin í afstöðu sinni til málsins, heldur líka Syriza flokkur Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.