Fagnar samningi við Írana

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur fagnað samningi sem náðist í gær við Írana um að þeir hægi á kjarnorkutilraunum sínum og minnki birgðir sínar af auðguðu úrani. Í staðinn verður refsiaðgerðum aflétt. Obama sagði að söguleg tímamót hefðu orðið í Mið-Austurlöndum.

„Vegna þessa samnings mun alþjóðasamfélagið geta sannreynt að Íran ætli ekki að framleiða kjarnorkuvopn,“ sagði forsetinn.

Sexveldin svokölluðu, Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Þýskaland auk Rússlands og Kína, hafa síðustu vikurnar átt viðræður við Írana um kjarnorkuáætlunina sem vesturveldin álíta að beinist að smíði kjarnorkuvopna.

Þingið í Washington hefur 60 daga til að fara yfir samninginn, repúblikanar gagnrýna Obama hart fyrir að teygja sig of langt til móts við Írana. En í reynd þarf tvo þriðju atkvæða til að fella samninginn og þurfa þá margir demókratar að svíkja lit.

Minna úran og færri skilvindur

• Skilmálar falla þó úr gildi eftir 15 ár Allt bendir til þess að voldugasti maður Írans, ajatollah Ali Khamenei, hafi samþykkt þær tilslakanir sem Íransstjórn hefur nú gert. Khamenei hefur oft sett samningamönnum Írana stólinn fyrir dyrnar á síðustu stundu í viðræðunum. Íranar féllust á að minnka næstu 15 árin um 98% birgðir sínar af auðguðu úrani en efnið er hægt að nota í kjarnorkuvopn. Einnig munu þeir fækka um tvo þriðju skilvindum sem notaðar eru til að auðga úran. Þær verða framvegis liðlega 5.000, aðallega í Natanz-rannsóknastöðinni. Alþjóðlegt eftirlit verður haft með skilvindunum.

Olía og vopn

Álitið er að þær takmarkanir sem settar hafa verið á úranbirgðir og skilvindufjölda valdi því að Íranar þyrftu a.m.k. eitt ár til að smíða kjarnorkusprengju, færi svo að þeir stæðu ekki við samninginn og hann félli því úr gildi.

Alþjóðlegar viðskiptarefsingar gegn Írönum verða afnumdar. Þeir munu því geta selt olíu og gas á heimsmörkuðum og byrjað aftur að nota þjónustu alþjóðlega bankakerfisins. Íran er eitt af mestu olíuríkjum heims og því ljóst að samningurinn getur haft mikil áhrif á orkuviðskipti í heiminum. Verðfall varð á olíu á mörkuðum strax í gær.

Bannið gegn vopnasölu til Írana verður afnumið í áföngum. Frekari þróun mun fara að verulegu leyti eftir því hvort Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, meti það svo að kjarnorkurannsóknir Írana beinist nú eingöngu að friðsamlegri hagnýtingu orku, eins og ráðamenn í Teheran hafa ávallt fullyrt.

Fari svo að alþjóðleg nefnd komist að þeirri niðurstöðu að Íranar standi ekki við ákvæði samningsins verður hægt að koma í snatri aftur á refsiaðgerðum. Í nefndinni sitja fulltrúar sexveldanna auk Írans. En atkvæði meirihlutans, þ.e. fjögur af sjö, duga til að samþykkja slíka ákvörðun.

Loks má geta þess að tímabundið bann verður við því að Íranar geti áfram þróað sprengiodda á eldflaugar og gert tilraunir með ýmiss konar hátæknibúnað fyrir kjarnorkuvopn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert