Gríska þingið samþykkti tillöguna

Alexis Tsipras í þingsalnum í kvöld.
Alexis Tsipras í þingsalnum í kvöld. AFP

Atkvæðagreiðslu um samkomulag Grikklands við lánardrottnana lauk rétt í þessu á bakvið örugga veggi gríska þinghússins sem skilja þingmennina frá ofbeldisfullum mótmælendum sem berjast við lögregluna fyrir utan. Alls greiddu 229 þingmenn atkvæði með tillögunni en 64 gegn henni. Sex þingmenn sátu hjá.

Á gríska þinginu eru 300 þingmenn og er ríkisstjórnin með 162 og þar með meirihluta. Hins vegar er stjórnarflokkurinn Syriza klofinn í afstöðu sinni, meðal annars hefur aðstoðarfjármálaráðherra flokksins fyrr í dag sagt af sér embættinu þar sem hún sagðist ekki geta stutt samkomulagið. 

Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra flokksins, sem var látinn taka pokann sinn daginn eftir að gríska þjóðin hafnaði fyrra samkomulaginu í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðustu viku kaus gegn samkomulaginu. Alls kusu 32 þingmenn Syriza gegn tillögunni og þar með gegn flokksforystunni. Eru það mun fleiri en Alexis Tsipras forsætisráðherra og formaður Syriza gerði ráð fyrir.

Lokatölur:

Fjármálaráðherra evruríkjanna hafa boðað símafund í fyrramálið klukkan 8 þar sem niðurstaðan verður rædd.

Tsipras áfram forsætisráðherra

Þrátt fyrir að tillagan hafi verið samþykkt er niðurstaðan sögð talsvert áfall fyrir Tsipras sem þurfti að horfa á ansi marga þingmenn flokksins kjósa gegn forystunni. Hann hefur þó áður gefið það út að þeir sem kjósi gegn tillögunni myndu áfram verða þingmenn Syriza, og hafa margir þingmannanna sjálfir sagt að þeir vilji áfram starfa fyrir flokkinn.

Nú rétt í þessu voru að berast fregnir frá fjölmiðlum í Grikklandi þar sem fullyrt er að Tsipras muni áfram gegna stöðu forsætisráðherra landsins. Hann muni sækja stuðning til stjórnarandstöðuflokkanna þegar hann þarf á því að halda og miðað við hvernig atkvæðin féllu í dag þá þarf hannsvo sannarlega á þeim að halda til að koma í gegn þeim lagabreytingum sem tillögurnar fela í sér. Er einnig gefið í skyn að hann muni gera breytingar á ríkisstjórninni fljótlega.

Tsipras sagði í viðtali í vikunni að flokkurinn þurfi á 121 þingmanni til þess að geta haldið áfram í ríkisstjórn. Fjöldi þingmanna flokksins sem kaus með tillögunni í dag var 124 og er því ljóst að hans bíður mikið verk að byggja upp samstöðu innan flokksins.

Panagiotis Lafazanis, orkumálaráðherra, er einn þingmanna Syriza sem kaus gegn tillögunni. Hann fullyrðir í grískum fjölmiðlum að hann muni áfram styðja ríkisstjórn Tsipras. Margir velta hins vegar vöngum yfir því hvernig þingmenn Syriza sem kusu gegn tillögunni geti stutt ríkisstjórnina sem mun á næstu dögum og vikum koma í gegn lagabreytingum í samræmi við innihald tillagnanna. 

Fyrir önnur evruríki þýðir þessi niðurstaða að önnur þjóðþing þurfa nú að kjósa um hvort samþykkja eigi að veita Grikkjum neyðarlánið sem fellst í tillögunum upp á alls 86 milljarða evra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert