Alexis Tsipras tilkynnti í dag um breytingar á ríkisstjórn sinni. Breytingarnar eru gerðar í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um aðhaldstillögur Evrópusambandsins á þriðjudaginn þegar nokkrir þingmenn og ráðherrar flokks hans kusu gegn tillögunum.
Á meðal þeirra sem eru látnir fara er Panagiotis Lafazanis orkumálaráðherra. Var hann einn þeirra 39 þingmanna Syriza sem kusu gegn tillögunum. Lafazanis sagði eftir atkvæðagreiðsluna að hann myndi áfram styðja ríkisstjórnina. Núverandi atvinnumálaráðherra landsins Panos Skourletis mun taka við stöðu Lafazanis. Er hann talinn einn nánasti samstarfsmaður Tsipras. Skourletis mun að öllum líkindum fá það vandasama verk að undirbúa einkavæðingu orkufyrirtækja í landinu.
Aðstoðaratvinnumálaráðherra landsins, Dimitris Stratoulis og aðstoðarvarnarmálaráðherra Costas Isychos voru einnig látnir taka pokann sinn í dag.
Eftirmaður Stratoulis er fyrrum gamanleikarinn Pavlos Chaikalis sem er þingmaður Sjálfstæðra Grikkja, samstarfsflokks Syriza í ríkisstjórn. Christoforos Vernadakis, sem kemur úr gríska háskólasamfélaginu, mun taka við embætti aðstoðarvarnarmálaráðherra og Olga Gerosavili var í dag skipuð talsmaður ríkisstjórnarinnar. Hún er þingmaður Syriza. Munu þessir nýju ráðherrar sverja embættiseið á sunnudag.
Einhverjar raddir fóru að heyrast strax í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um að Tsipras væri að velta fyrir sér að boða til kosninga fljótlega. Hann hafði áður lofað að ekki yrði boðað til kosninga fyrr en eftir að tillagan væri samþykkt á gríska þinginu. Nikos Voutsis innanríkisráðherra sagði við fjölmiðla í dag að það sé ekki útilokað að boðað verði til kosninga í september eða október.