Hópur aðskilnaðarsinna í Úkraínu kom að flaki MH17, farþegaflugvélar Malaysia Airlines, fljótlega eftir að hún var skotin niður í lofthelgi Úkraínu og fór meðal annars í gegnum farangur látinna farþega. Þetta sést í myndbandi sem birt var á vef The Daily Telegraph í morgun, einu ári eftir harmleikinn.
298 manns létu lífið þegar vélin var skotin niður, en svo virðist sem mennirnir, sem eru taldir vera uppreisnarmenn hliðhollir Rússum, hafi talið að vélin væri úkraínsk herflugvél. Einn þeirra, sem talar blöndu af rússnesku og úkraínsku, heyrist spyrja hvar brakið úr Sukhoi vélinni sé en er þá svarað að vélin sé í raun farþegaflugvél.
Yfirvöld í Ástralíu hafa lýst yfir andstyggð á því sem í myndbandinu sést, en þar eru meðal annars lík farþega á víð og dreif. Þá þykir sérkennilegt að myndbandið komi út núna, akkúrat einu ári eftir að vélin var skotin niður. „Þetta er viðbjóðslegt að horfa á,“ sagði Julie Bishop, utanríkisráðherra Ástralíu.
Vélin var á leið frá Amsterdam í Hollandi til Kuala Lumpur í Malasíu. Flestir um borð voru hollenskir ríkisborgarar og hafa stjórnvöld þar í landi kallað eftir að alþjóðlegur dómstóll verði settur á fót til að rétta yfir þeim sem ábyrgir eru.
Hollenskir sérfræðingar fara fyrir rannsóknarhóp sem rannsakar voðaverkið, en talið er að vélin hafi verið skotin niður með flugskeyti sem hafi verið skotið frá svæði sem var undir stjórn aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.
Í skýrslu um flugið kemur fram að flugfélagið hefði átt að fara eftir viðvörunum um að fljúga ekki yfir átakasvæðið. Búist er við að skýrslan verði birt í október nk. en þar mun meðal annars koma fram hvaðan eldflauginni var skotið, hverjir réðu yfir því svæði á þeim tíma og jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að aðskilnaðarsinnar, sem börðust gegn stjórnvöldum fyrir innlimun Austur-Úkraínu í Rússlandi, hafi grandað vélinni.