Breska konungsfjölskyldan hefur lýst yfir vonbrigðum með að breska dagblaðið The Sun birti myndband sem sýnir Elísabetu drottningu heilsa að sið Hitlers árið 1933, eða þegar hún var um sjö ára gömul. Myndbandið sýnir Elísabetu, móður hennar, systur og frænda, en móðir hennar heilsar einnig á sama hátt, en svo virðist vera sem Eðvarð áttundi, frændi drottningarinnar sem seinna varð kóngur, hafi hvatt til verknaðarins. Á myndbandinu sést drottningin reisa hægri hönd sína að sið Nasista þrisvar sinnum.
Tengsl Eðvarðs við Nasista hafa lengi verið umdeild í Bretlandi, en sumir sagnfræðingar segja að hann hafi verið samúðarfullur gagnvart málstað þeirra. Hann hitti meðal annars Hitler í Þýskalandi árið 1937, en þá hafði hann gefið konungstignina frá sér árið áður þar sem hann vildi giftast bandarísku konunni Wallis Simpson, sem áður hafði skilið.
Þótt ólíklegt sé að Elísabet hafi skilið til fulls merkingu kveðjunnar er ljóst að myndbandið skaðar ímynd konungsfjölskyldunnar. Tíu ár eru nú liðin síðan sama blað birti myndir af Harrý prins í búningapartí þar sem hann skartaði búningi Nasista og var með armband með hakakrossinum.