Laurent Sourisseau, ristjóri franska satírublaðsins Charlie Hebdo, hefur tilkynnt að blaðið muni ekki lengur teikna skopmyndir af Múhameð spámanni.
„Við höfum teiknað Múhameð til að standa vörð um þau grunngildi að hver ætti að geta teiknað það sem hann vill,“ sagði hann í samtali við þýska tímaritið Stern.
Skopmyndateiknarar blaðsins hefðu skilað sínu og staðið vörð um tjáningarfrelsið.
„Við höfum unnið okkar vinnu. Við höfum varið réttinn til að skopstæla,“ sagði hann. „Við trúum því enn að við höfum rétt á því að gagnrýna öll trúarbrögð.“
Tólf manns féllu í árásinni á ritstjórnarskrifstofur blaðsins í París í janúarmánuði síðastliðnum. Innan fárra daga gáfu eftirlifandi starfsmenn Charlie Hebdo út nýtt tölublað, sem skartaði teikningu af Múhameð á forsíðunni undir fyrirsögninni „Allt er fyrirgefið“. Þá hélt spámaðurinn á spjaldi sem á stóð: Ég er Charlie.