Olíuflutningaskip sigldi á dönsku farþegaferjuna Stena Jutlandica undan vesturströnd Svíþjóðar, rétt hjá Gautaborg, í nótt. Gat myndaðist á hlið ferjunnar með þeim afleiðingum að sjór lak inn í hana.
Ferjan var á leið frá Friðrikshöfn í Danmerku og til Gautaborgar. Um 539 manns voru um borð í henni, en ekki er talið að slys hafi orðið á fólki.
Talsmaður Stena sagði að öryggi fólks hefði ekki verið í hættu.
Óhappið átti sér stað við innsiglinguna í Gautaborg. Þar hefur verið afar vindasamt undanfarna daga.
Olíuflutningaskipið var með um tólf þúsund tonn af olíu meðferðis, að því er talið er, en ekkert bendir til þess að olía hafi lekið í sjóinn.
Lögreglan rannsakar nú málið.