Breska konungshöllin íhugar nú að leita lagalegs réttar síns eftir að breski fjölmiðillinn The Sun birti í gær myndband þar sem sést hvar föðurbróðir Elísabetar Bretlandsdrottningar kennir henni að heilsa að sið nasista. Elísabet var þá sjö ára gömul.
Konungshöllin hyggst rannsaka hvernig á því standi að myndbandið hafi verið gert opinbert.
Samkvæmt heimildum Sky News beinist rannsóknin aðallega að því hvaðan myndbandið kemur, hver hafi lekið því til The Sun og af hverju.
Telur konungshöllin jafnvel að birtingin varði við lög, þar á meðal höfundarréttarlög.
Konungshöllin lýsti í gær yfir vonbrigðum sínum með birtingu myndbandsins.
Myndskeiðið var tekið um sex mánuðum eftir að Adolf Hitler komst til valda í Þýskalandi árið 1933. Þar sést prinsinn af Wales og föðurbróðir Elísabetar drottningar, sem síðar varð Játvarður VIII konungur Bretlands, kenna hinni sjö ára Elísabetu að heilsa að sið nasista.
Myndskeiðið hefur vakið hörð viðbrögð. Ekki er vitan hvaðan það kemur en breskir fjölmiðlar hafa greint frá því að það hafi komið í leitirnar þegar konungshöllin veitti kvikmyndafyrirtæki aðgang að myndefni um drottninguna þegar hún varð níræð í fyrra.
Ljóst er að myndskeiðið hefur nú þegar skaðað ímynd konungsfjölskyldunnar. Tíu ár eru nú liðin frá því að sama blað birti myndir af Harrý prins í búningapartí þar sem hann skartaði búningi nasista og var með armband með hakakrossinum.
Frétt mbl.is: Drottningin heilsar að hætti Hitlers