Trump: McCain er ekki stríðshetja

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandinn skrautlegi, hefur enn á ný valdið uppnámi í Bandaríkjunum, nú með því að gagnrýna öldungardeildarþingmanninn og fyrrverandi forsetaframbjóðandann John McCain á opnum kosningafundi í Iowa í Bandaríkjunum.

„Hann er ekki stríðshetja. Hann er aðeins talinn vera stríðshetja vegna þess að hann var tekinn til fanga. Mér líkar betur við þá sem voru ekki teknir til fanga,“ sagði Trump, en áður hafði fundarstjórinn lýst McCain sem stríðshetju.

McCain þjónaði sem herflugmaður í Víetnamstríðinu en var hins vegar tekinn til fanga eftir að flugvél hans var skotin niður. Honum var loks sleppt úr haldi fimm árum síðar.

Áhorfendur voru greinilega ekki ánægðir með ummæli Trumps og bauluðu á hann.

Trump reyndi síðar að útskýra orð sín betur, en baðst þó ekki afsökunar.

Hann sækist eftir því að verða forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum árið 2016. Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum mælist hann með mest fylgi af þeim repúblikunum sem hyggjast berjast um sætið.

Áður hafði McCain gagnrýnt harðlega ummæli Trumps um að mexíkóskir innflytjendur væru allir sem einn glæpamenn. Trump svaraði að bragði og sagði að McCain væri vitleysingur sem hefði útskrifast með lægstu einkunn úr herskóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert