Yfir helmingur Þjóðverja óánægður

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Yfir helmingur Þjóðverja telur að samkomulagið sem Grikkir hafa náð við lánardrottna sína sé slæmt og margir vilja fremur að landið yfirgefi evrópska myntbandalagið en að það fái frekari neyðarlán.

Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar.

Þýska þingið samþykkti á föstudag með miklum meirihluta atkvæða að heimila ríkisstjórn Angelu Merkel kanslara að hefja aftur viðræður við Grikki um að veita þeim ný lán vegna skuldavanda Grikklands.

Lánapakkinn hljóðar upp á um 86 milljarða evra og gildir til þriggja ára.

Í skoðanakönnuninni sem YouGov gerði fyrir þýska blaðið Welt am Sonntag sagðist 56% aðspurðra að samkomulagið við Grikkja væri slæmt, en um fimmtungur sagði það vera mjög slæmt.

Aðeins 2% taldi það vera jákvætt en 27% jákvætt að einhverju leyti.

Merkel hefur verið gagnrýnd í Þýskalandi fyrir að hafa sýnt Grikkjum linku með því að samþykkja að nota þýskt skattfé til að veita þeim stór lán sem verði líklega aldrei endurgreidd.

48% aðspurðra sagðist frekar hafa viljað sjá Grikki segja skilið við evruna, en aðeins þriðjungur vill hafa Grikki áfram í evrusamstarfinu, að sögn Reuters.

Önnur skoðanakönnun, sem Forsa sýndi á föstudaginn, sýndi að 53% Þjóðverja vildi að þýska þingið samþykkti að heimila viðræður um nýjan lánapakka. 42% sagðist vera mótfallinn því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert