Allt að tíu afganskir hermenn létu lífið í Afganistan í dag, þegar Bandaríkjamenn gerðu loftárás á varðstöð í Baraki Barak í Logar-héraði. Þetta mun vera í annað sinn sem „vinveittir“ falla í árásum bandamanna frá því í desember sl., þegar fimm óbreyttir borgarar féllu í loftárásum NATO.
Samkvæmt afgönskum yfirvöldum gerðu tvær bandarískar herþyrlur árás á varðstöðina kl. 6 í morgun að staðartíma, með þeim afleiðingum að eldur kviknaði og tíu hermenn létu lífið. Upplýsingar um fjölda látinna er nokkuð á reiki en samkvæmt afganska hernum létu átta lífið.
Bandarísk yfirvöld segjast harma atvikið og hafa hafið rannsókn. Samkvæmt þeim létu sjö lífið. Forseti Afganistan, Ashraf Ghani, hefur hvatt bandamenn til ítrustu varkárni til að forða því að atvik af þessu tagi endurtaki sig.
Að sögn afganska varnarmálaráðuneytisins höfðu uppreisnarmenn skotið á þyrlur bandamanna, en það fylgdi ekki sögunni hvort það væri orsök árásarinnar á varðstöðina.
Árásum sveita talibana hefur fjölgað á sumarmánuðum, þrátt fyrir tilraunir afganskra stjórnvalda til að koma á friðarviðræðum.