Vitnisburður um elju og vanhæfi

David Sweat til hægri og Richard Matt til vinstri. Sweat …
David Sweat til hægri og Richard Matt til vinstri. Sweat hefur uppljóstrað hvernig þeir fóru að því að flýja fangelsi. AFP

Nótt eftir nótt brá David Sweat sér út um gat sem hann hafði sagað á klefa sinn í Clinton-fangelsinu í New York. Hann ráfaði um gangakerfið undir fangelsinu og leitaði að leið út, fullviss um að verðirnir yrðu þess ekki varir þar sem þeir sváfu. Síðan snéri hann aftur og lagðist til hvílu áður en talning fór fram.

Einhvern veginn á þessa leið hefst frásögn New York Times af flótta tveggja stórhættulegra fanga, sem lögregla vestanhafs leitaði logandi ljósum fyrr í sumar.

Sweat, sem afplánaði lífstíðardóm fyrir morð, hefur lýst flóttanum í smáatriðum fyrir lögreglu, m.a. hvernig hann notaði rafmagn frá ljósi í göngunum til að knýja viftu úr klefa sínum þegar honum varð heitt við að grafa sig í gegnum steyptan vegg.

Samkvæmt New York Times bar flóttin vitni um ótrúlega útsjónarsemi og elju, en hann er einnig til marks um vanhæfi þeirra sem áttu að sjá til þess að Sweat sæti kyrr bak við lás og slá, fálæti gagnvart reglum, leti og jafnvel meðvirkni.

Heimildarmaður hefur staðfest að frásögn Sweat, sem afhjúpaði m.a. hvernig hann gróf í gegnum veggi og sagaði í gegnum rör, stemmi að mestu leiti við það sem vitað er og þyki trúverðug.

Á flótta í 22 daga

Sweat virtist hafa nokkra ánægju af því rekja atburði fyrir lögreglu úr sjúkrarúmi sínu, en þess ber að geta að félagi hans, Richard W. Matt, lést af höndum lögreglu á flóttanum. Samkvæmt Sweat hafði áætlunin verið lengi í býgerð en varð að veruleika eftir að hann var fluttur í klefa við hliðina á Matt í janúar sl.

Sweat byrjaði að saga sig í gegnum veggi klefanna og í febrúar hóf hann næturferðalög sín. Hann yfirgaf klefann kl. 23.30 og snéri aftur fyrir kl. 5.30, þegar talning fór fram.

Að lokum fann hann leiðina út; lagnir sem lágu út fyrir veggi fangelsisins. Það tók hann meira en fjórar vikur að saga sig inn í lagnakerfið, en þegar út var komið tóku ný vandræði við. Hvorki Sweat né Matt höfðu hugsað mikið út í það hvað gerðist þegar frelsið væri fengið. Þeir höfðu útvegað sér far, en ökumaðurinn lét ekki sjá sig. Þeir flúðu út í skóg.

Á endanum skildu leiðir og eftir umfangsmikla leit var Matt skotinn til bana af lögreglu þegar hann neitaði að leggja niður skotvopn sem hann hafði undir höndum. Það var 26. júní en félagarnir höfðu þá verið á flótta í 20 daga.

Tveimur dögum seinna varð Sweat á vegi lögreglumanns, sem elti hann uppi og skaut tvisvar þegar strokufanginn neitaði að hlýða skipun um að stoppa.

Kona að hafni Joyce E. Mitchell hefur verið ákærð fyrir að smygla sagarblöðum, meitlum og öðrum verkfærum inn í fangelsið. Yfirmaður fangelsisins, tveir undirmenn hans og níu fagnaverðir hafa verið sendir í leyfi.

Sweat er haldið í einangrun í Five Points hámarksöryggisgæslufangelsinu í Romulus New York. Margir hafa líkt flótta hans og Matt við flótta Andy Dufresne í myndinni Shawshank Redemption. Sweat ku hafa sagt lögreglumönnum að hann og félagi hans hafi einmitt grínast með að það hefði tekið Dufresne, sem leikinn var af Tim Robbins, 20 ár að flýja, en það myndi taka þá 10 ár.

Ítarleg frétt New York Times.

Lögreglumenn standa og hlýða á ríkisstjóra New York segja frá …
Lögreglumenn standa og hlýða á ríkisstjóra New York segja frá því að Sweat hafi náðst. AFP
Börn þakka lögregluyfirvöldum fyrir að hafa haft hendur í hári …
Börn þakka lögregluyfirvöldum fyrir að hafa haft hendur í hári strokufanganna, en þeir voru sagðir afar hættulegir og jafnvel vopnaðir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert